Ómeðvitaður eigandi eignarhaldsfélaga

Steingrímur Wernersson
Steingrímur Wernersson mbl.is/Rósa Braga

„Ég skrifaði undir að kaupa Ingu út og þar með var minni aðkomu lokið,“ sagði Steingrímur Wernersson fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann er ákærður ásamt fleiri stjórnendum Milestone fyr­ir umboðssvik, meiri­hátt­ar brot á bók­halds­lög­um og lög­um um árs­reikn­inga.

Í mál­inu eru Guðmund­ur Ólason, fv. for­stjóri Milest­one, Karl Werners­son, fv. stjórn­ar­formaður, og Stein­grím­ur Werner­son, fv. stjórn­ar­maður, ákærðir vegna greiðslna til Ing­unn­ar Wernersdóttur en þær námu á sjötta millj­arð króna.

Jafn­framt eru end­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga vegna viðskipt­anna.

Vissi ekki neitt

Eftir hádegi í dag hélt skýrslutaka yfir Karli áfram en þegar henni lauk tók Arngrímur Ísberg dómsformaður í málinu til máls. Hann las saksóknara embættis sérstaks saksóknara pistilinn vegna þeirrar tafar sem orðið hefur á aðalmeðferðinni, en skýrslutakan yfir Karli gekk afar seinlega. „Þetta er gjörsamlega óásættanlegt og er mjög ámælisvert, svo ekki sé meira sagt,“ sagði Arngrímur og fór fram á að saksóknari haldi sig við sína eigin áætlun það sem eftir er aðalmeðferðinni.

Mun betur gekk að taka skýrslu af Steingrími og helgaðist það helst af því að hann sagðist annað hvort ekki vita neitt eða muna neitt. Hann sagðist ekkert hafa verið neitt sérlega meðvitaður um að hann hefði verið eigandi að félögunum Milestone Import Export og Leiftri. 

Í hnotskurn var skýrslutakan á þessa leið:

Saksóknari: „Hvernig voru kaup ykkar á hlut Ingunnar fjármögnuð?“

Steingrímur: „Hef ekki hugmynd.“

Saksóknari: „Hver eignaðist hlutaféð?“

Steingrímur: „Það hef ég ekki hugmynd um.“

Hann sagðist á þessum tíma - í lok desember 2005 - hafa verið að flytja heim til Íslands og því hafi hann ekki verið mikið inni í málum. „Ég kann ekkert á lög og reglugerðir þegar kemur að bókhaldi og öðru slíku. Ég var með sérfræðinga í vinnu og skrifaði sjálfur bara undir.“

Steingrímur sagðist ekki hafa haft hugmynd um að Milestone hefði fjármagnað kaupin á hlut Ingunnar. „Mín hugsun var að hjálpa systur minni að komast út úr fyrirtækinu og ég hugsaði það ekki lengra. Síðan var þetta í höndum manna sem voru mjög klárir.“ Hann þuldi upp að meðal starfsmanna hefðu verið lögfræðiprófessor, löggiltir endurskoðendur og hagfræðingar. „Ef maður á ekki að treysta þessum mönnum, hverjum á maður þá að treysta?“

Kom ekki að neinni ákvörðun

Spurður hvort hann hafi ekki talið sig bera ábyrgð á bókhaldi Milestone sagði Steingrímur svo ekki vera. „Hvernig í ósköpunum get ég borið ábyrgð á bókhaldi félagsins þegar ég kann ekkert á bókhald. Við vorum með bókara.“ Dró hann aðeins úr síðar og sagðist ekki hafa getað borið ábyrgð á einstaka færslum í bókhaldi félagsins.

Dómsformaður tók svo við að spyrja Steingrím vegna svara hans. Spurði hann Steingrím meðal annars hvort honum sé ekki kunnugt um að þeir sem sitji í stjórnum fyrirtækja beri ákveðnar skyldur. „Jú jú, en ef starfsmaður fer út fyrir starfssvið sitt get ég ekki borið ábyrgð á því,“ sagði Steingrímur og bætti við að hann hefði sinnt lyfjahluta Milestone en aðrir fjármála- og bókhaldshluta.

Að endingu spurði saksóknari Steingrím hvort hann liti svo á að honum hefði verið haldið utan við ákvarðanatökur hjá Milestone. „Kannski, ég veit það ekki. En ég fékk ekki upplýsingar um þetta [sem ákært er fyrir]. Ég var bara að vinna að málum sem sneru að mér.“

Saksóknari: „En þetta snýr persónulega að þér.“

Steingrímur: „Ég undirritaði samninga, ég er ekkert að skorast undan því.“

Saksóknari: „En þú komst ekki að neinni ákvörðun?“

Steingrímur: „Nei.“

Eingöngu ráðgjafi og umsagnaraðili

Því næst gaf Guðmundur skýrslu og byrjaði á því að lesa upp yfirlýsingu. Sagði hann að hjá Milestone hefðu verið 6-7 starfsmenn að meðaltali á árunum 2005-2009 og að Karl og Steingrímur hefðu haft nánast daglega viðveru á skrifstofunni. Náin samskipti hafi verið um ákvarðanir, hópurinn hafi verið lítill og samhentur og aldrei hafi komið upp ágreiningur um ákvarðanatöku.

Hann gagnrýndi sérstakan saksóknara enda hafi hann haft réttarstöðu grunaðs manns frá því í júlí 2009, samningur um kaup á hlutum Ingunnar hafi verið undirritaður 4. desember 2005 og því geti verið erfitt að muna nákvæmlega hvað gerðist fyrir rétt tæpum níu árum. „Þá hef ég komið alloft í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara og oft og tíðum hefur reynst erfitt að átta sig á því hvaða mál eru til rannsóknar hverju sinni.“

Spurður um það hvaða aðkomu hann eigi að þessu máli sagðist Guðmundur hafa verið framkvæmdastjóri Milestone á þessum tíma og flestir samninganna hafi verið unnir á starfsstöð félagsins. „En aðkoma mín var eingöngu sem ráðgjafi eða umsagnaraðili um tiltekin atriði.“

Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun.

Frétt mbl.is: „Þetta hefur farið laglega úr böndunum“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert