Þetta gerist ef ekki semst í kvöld

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, er að falla á tíma …
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, er að falla á tíma því verkfall hefst á miðnætti. mbl.is/Kristinn

Þrátt fyrir að fram hafi komið síðdegis að viðræður í kjaradeilu lækna þokist í rétta átt hefst verkfall á miðnætti ef ekki verður samið fyrir þann tíma. Hver verkfallslota mun ná yfir fjórar vikur og starfseiningar verða í verkfalli í fjóra daga í senn, frá mánudegi til fimmtudags.

Tæplega 85% atkvæðisbærra lækna tóku í byrjun desember þátt í atkvæðagreiðslu um það hvort herða ætti verkfallsaðgerðir. Tæplega 98% samþykktu þær verkfallsaðgerðir sem hefjast að óbreyttu á miðnætti.

Þetta hefur í för með sér að frá miðnætti til miðnættis fimmtudaginn 8. janúar 2015 verður verkfall á eftirtöldum heilbrigðisstofnunum/sjúkrahúsum eða sviðum sjúkrahúss og opinberum stofnunum þar sem læknar starfa:

  • Aðgerðarsvið Landspítala
  • Flæðisvið Landspítala
  • Sjúkratryggingar Íslands
  • Tryggingastofnun ríkisins
  • Greiningarstöð ríkisins f. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
  • Vinnueftirlit ríkisins
  • Lyfjastofnun Íslands
  • Embætti landlæknis
  • Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði síðdegis að viðræðurnar gangi ágætlega. „Viðræðunum miðar þokkalega en þó er lítill munur á árangri dagsins og þeim sem hefur verið síðustu vikur. Það er alltaf von þrátt fyrir að svo fari að þetta fyrsta verkfall verði veruleiki. Ef við náum ekki samkomulagi í kvöld þá verður fundað á morgun og alveg út vikuna ef þörf krefur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert