Nothæfisstuðlar hafa ekki verið reiknaðir fyrir aðra flugvelli á Íslandi en Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll. Þar sem ekki er möguleiki á annarri braut á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði hefur nýtingarhlutfallið ekki verið reiknað til samanburðar við annan kost.
Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hjörvar um nothæfisstuðul flugvalla. Í svarinu segir einnig að nokkur kostnaður felist í að reikna slíkt hlutfall og hefur það því ekki verið gert.
Nothæfisstuðull flugvalla er m.a. reiknaður út frá veðurþáttum sem hafa takmarkandi áhrif á flugvélar í lendingu og flugtaki. Í 14. viðauka við Chicago-samninginn (stofnskrá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar) er nothæfisstuðull skilgreindur út frá hliðarvindi. Meðvindur, vindhviður, skyggni og skýjahæð geta einnig haft hamlandi áhrif á flug og þar sem mælingar á þessum þáttum eru til staðar hafa þeir stundum verið teknir með í forsendur fyrir útreikningum. T
akmarkanir vegna þessara þátta geta ráðist af legu flugvalla, lengd flugbrauta o.fl. Þeir flokkar flugvéla sem nota flugvöllinn geta einnig haft áhrif á takmarkanir vegna mismunandi hæfni þeirra t.d. til að ráða við hliðarvind. Isavia ohf. skilgreinir takmarkandi þætti fyrir flugvöll og gefur upplýsingar um flugvöllinn. Veðurmælingar á flugvöllum eru svo nýttar til að meta nothæfisstuðul flugvallar út frá þessum forsendum.