Af 182 nauðgunum sem komu á borð Stígamóta á síðasta ári voru 19 þeirra skilgreindar sem hópnauðganir, eða 10,4%. Á árinu þar á undan voru þær sautján. Þetta kom fram á blaðamannafundi Stígamóta í gærmorgun þar sem farið var yfir ársskýrslu samtakanna fyrir síðasta ár. „Í tveimur tilfellum voru það fjórir menn sem nauðguðu einni konu. Í sjö tilvikum voru það tveir menn, í fjórum tilvikum voru þeir þrír en í sex tilvikum vantaði upplýsingar,“ sagði Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta á fundinum.
„Þessar tölur eru til marks um það að hópnauðganir er ansi skipulegt ofbeldi og brotaviljinn mikill þegar að menn hópast saman um að meiða.“
Af þessum 182 nauðgunum voru þrettán þeirra lyfjanauðganir eða 7,1%. Tíu tilvik féllu undir „annað“ eða „Ekki viss“.
Í skýrslunni koma einnig fram upplýsingar um neyslu eða athafnir fórnalamba eftir kynferðisbrot sem skerða lífsgæði og trufla daglegt líf. Var þeim skipt eftir kyni. Í ljós kom að á meðan karlar nefndu oftar en konur áfengi, önnur vímuefni, fjárhættuspil og klám, nefndu konur oftar en karlar mat og kynlíf. Sagði Guðrún að dæmi séu um að konur þrói með sér matarfíkn eftir að þær verði fyrir kynferðisbroti.
Af þeim fórnarlömbum kynferðisbrots sem komu til Stígamóta á síðasta ári höfðu 27,7% karla gert tilraun til sjálfsvígs en 22,2% kvenna. Sagði Guðrún að samkvæmt viðtölum og rannsóknum eru karlar oft ákveðnari í sjálfsvígstilraunum en konur. „Ef þeir ætla það þá gera þeir það frekar. Það er eins og körlum takist það miklu oftar en konur og séu ákveðnari.“