Skýra afstöðu stjórnvalda til málsins

Stjórnvöld hafa í hyggju að taka fullan þátt í meðferð EFTA-dómstólsins á máli sem snýst um kröfur Seðlabanka Hollands (DNB) og breska innistæðusjóðsins (FSCS) á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) og rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði héraðsdóms um að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins vegna málsins sem höfðað var fyrir um ári síðan.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Stjórnvöld hafa ekki haft neina aðkomu að dómsmálinu fyrir héraðsdómi og verður þannig áfram. Aðkoma þeirra að meðferð málsins fyrir EFTA-domstólnum mun fyrst og fremst snúast um að koma sjónarmiðum stjórnvalda á framfæri í meðferð málsins á þeim vettvangi og skýra þau samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Komið verður á fót sérstöku teymi fulltrúa utanríkisráðuneytisins, sem mun fara formlega með fyrirsvar gagnvart EFTA-dómstólnum, og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem
innstæðutryggingar og fjármálastöðugleiki heyra undir. Verður teyminu falið að velja málflutningsmann eða -menn sem þykja best til þess fallnir að flytja málið vegna þekkingar sinnar og reynslu.

EFTA-dómstóllinn kvað upp þann úrskurð í byrjun árs 2013, í svonefndu Icesave-máli, að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldbindingum TIF. Í kjölfar þess ákváðu DNB og FSCS að beina kröfum sínum að íslenska innistæðutryggingasjóðnum. Dómsmálið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur snýst um þá kröfu. Gerð er krafa um greiðslu vaxta af hlutdeild TIF í greiddum innstæðutryggingum auk kostnaðar stefnenda af útgreiðslu til breskra og hollenskra innstæðueigenda vegna Icesave-reikninganna.

Fréttir mbl.is:

Lögsóknin hefur engin áhrif á lánshæfi

Bjarni segir að ekki muni reyna á ábyrgð ríkisins

Ber skýlausa skyldu til að borga

Krefjast 556 milljarða frá Tryggingarsjóði Innstæðueigenda og fjárfesta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert