Strokukópurinn í Laugardal er hress og lítið sér á þreytu að sögn Hilmars Össurarsonar, dýrahirðis hjá Húsdýragarðinum.
Líkt og fram hefur komið fann kópurinn útgönguleið frá selalauginni og glufu undir girðingunni í kringum garðinn. Hann skreið síðan tæpan kílómetra og endaði á tjaldsvæðinu í Laugardal.
Ljósmyndari mbl leit við í selalauginni í dag þar sem aðrir selir virtust ekki vera á neinum faraldsfæti. Þeir lágu bara á bakkanum og slökuðu á eftir viðburðaríkan dag. Félagarnir fá þó ekki að heyra reisusöguna alveg strax þar sem strokukópurinn verður ekki í lauginni næstu daga.
Ástæðan er sú að margir starfsmenn eru í sumarfríi og því er ekki hægt að fylla strax upp í útgönguleiðina.
Hilmar segist hræddur um að selurinn myndi fara beinustu leið aftur út við óbreyttar aðstæður.
Frétt mbl.is: Einbeittur brotavilji strokukópsins
Frétt mbl.is: Selur á tjaldstæðinu í Laugardal
Frétt mbl.is: Loðinn feitur og kjagandi um