Al Thani-málið ekki fordæmi

Sigríður Elín Sigfúsdóttir var sýknuð í héraði. Í dag fór …
Sigríður Elín Sigfúsdóttir var sýknuð í héraði. Í dag fór fram málflutningur í Hæstarétti, en ákæruvaldið áfrýjaði dómnum. mbl.is/Þórður

Ákvæði laga um markaðsmisnotkun tekur ekki til lánveitingar og því nær það ekki til aðkomu Elínar Sigfúsdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs hjá Landsbankanum, í Ímon-málinu. Þetta sagði Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi Elínar, í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti í dag. Ítrekaði hún að Elín hafði ekkert að gera með verðbréfaviðskipti og í raun hefðu Kínamúrar innan bankans bannað að hún kæmi að slíkum málum. Helga sagði að það að samþykkja lán gæti aldrei fallið undir verklýsingu um refsivert athæfi í lögum um verðbréfaviðskipti sem ákæruvaldið hefði ákært fyrir.

Þá benti Helga á að Elín hefði aldrei verið í sambandi við forsvarsmenn Ímon og ekki verið viðstödd á fundi þegar kaupin voru rædd af forsvarsmönnum Landsbankans við þá sem komu að Ímon.

Í máli saksóknara fyrr í dag hafði verið vísað til fordæmis í Al-Thani málinu, en Helga sagði að þetta væru tvö mjög ólík mál. Í Al-Thani málinu hefði t.d. ekki verið búið að ganga frá handveðsetningum, en í þessu máli hafi slíkt verið fyrir hendi, auk viðbótarveða í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs.

Þá sagði hún að sú staðreynd að Ímon væri enn félag sem væri lifandi í dag, sjö árum síðar, væri sönnun þess að það félag hefði ekki staðið jafn illa og ákæruvaldið gaf til kynna.

Elín er ákærð fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í tengslum við lánveitingu til Ímon, en félagið nýtti fjármunina til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum á dögunum fyrir hrun. Var um að ræða alls fimm milljarða lán og voru bréfin sjálf sett að veði, auk þess sem hluti bréfa Ímon í Byr sparisjóði voru tekinn aukalega að veði. Deilt er um það hversu verðmætt það veð var.

Sagði Helga enga persónulega hagsmuni hafa verið á bak við ákvarðanir Elínar, enda hefði hún aldrei átt hlutabréf í bankanum. Hún hafi einfaldlega talið bankann standa betur eftir þessi viðskipti og nefni hún að lánið hafi ekki verið ókeypis, heldur hafi á þessum tíma borið 19% vexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert