Meinað að taka myndir við Mývatn

Mynd sem Hörður tók á sama stað á þjóðvegi 848 …
Mynd sem Hörður tók á sama stað á þjóðvegi 848 fyrir framan Selhótel í átt að Gíghóteli fyrr í þessum mánuði. mynd/Hörður Jónasson

Öryggisverðir við tökustað kvikmyndarinnar „Fast and the Furious 8“ bönnuðu Herði Jónassyni að taka myndir á þjóðveginum sunnan við Mývatn þegar hann var á ferð þar í gær. Hörður segist ekki hafa verið inni á lokuðu svæði og telur það ekki standast að banna fólki að taka myndir.

„Ég var bara á þjóðveginum beint fyrir framan Selhótel. Gegnt hótelinu er Hótel Gígur og þar er lokað svæði þar sem eru leikmunir og dót sem fylgir kvikmyndatökunni. Ég var ekkert inni á lokuðu svæði hjá kvikmyndagenginu heldur sat ég bara inni í bílnum mínum,“ segir Hörður sem var að taka myndir í áttina að búnaði sem tilheyrir kvikmyndatökunum.

Þá dreif að öryggisvörð sem spurði hann hvort hann hefði ekki séð skilti sem bannaði myndatökur. Hörður, sem býr á Húsavík, segist hafa orðið við því þó að það hafi hvergi verið tilkynnt opinberlega að bannað væri að taka myndir á þessu svæði. Í það minnsta væri ekkert um það á vefsíðu Skútustaðahrepps eða Vegagerðarinnar.

„Þetta stenst náttúrulega ekki. Þeir geta ekki bannað fólki að taka ljósmyndir. Þarna við hliðina eru Skútustaðagígar sem er ferðamannastaðurinn í Mývatnssveit. Ferðamönnum er heimilt að labba þangað. Það er bara við hliðina á Gíghóteli,“ segir hann og bendir á að öll leikmyndin, bílar og tæki séu við þjóðveginn.

„Ég held að þeir séu ekki í neinum rétti að banna myndatökur þarna,“ segir Hörður.

Fyrri frétt mbl.is: Furious 8 tekin upp við Mývatn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka