Karlmaður á sextugsaldri sem búsettur er á Akureyri hefur verið kærður til lögreglunnar fyrir að hafa áreitt konu, andlega og líkamlega, í nokkra mánuði.
Benedikt Guðmundsson vakti athygli á áreiti mannsins í garð fyrrverandi eiginkonu sinnar á Facebook síðu sinni og fékk í kjölfarið fjölda tölvupósta frá konum sem höfðu svipaða sögu að segja.
„Þó nokkuð margar konur hafa haft samband við mig og sagt mér sögur af þessum manni og flestar þeirra óttast hann enn,“ segir Benedikt, en frásagnirnar spanna yfir 40 ára tímabil.
Fyrrverandi eiginkona Benedikts hafði samband við lögreglu og lagði fram kæru. „Ég sendi lögreglunni 4-5 síður af tilvitnunum í tölvupósta sem ég hef fengið frá konum sem hafa svipaða sögu að segja af manninum.“
Hvað varðar mál fyrrverandi eiginkonu Benedikts þá hefur maðurinn sent henni þúsundir SMS skilaboða og hringt ítrekað í hana. „Hann hefur hringt í heimasímann dag og nótt auk þess að hanga fyrir utan húsið þar sem hún býr eða þar sem hún vinnur í tíma og ótíma,“ segir Benedikt í frásögn sinni á Facebook.
Benedikt segir það einnig hafa vakið mikinn óhug að maðurinn var sífellt staddur á sama stað og fyrrverandi eiginkona sín. „Hvernig hann getur alltaf verið á sama stað og viðkomandi segir hversu vel hann fylgist með fórnarlömbum sínum.“
Málið hefur haft mikil áhrif á fjölskyldu Benedikts. „Maður verður svo heltekinn af þessu að það kemst ekkert annað að.“ Hann vonast eftir því að frásögn hans hafi þau áhrif að tekið verði á málinu, en gerir sér grein fyrir að sönnunarbyrðin er erfið í málum af þessu tagi.
„Fórnarlambið þarf að sýna fram á sekt hins grunaða og það getur verið æði erfitt að sanna andlegt ofbeldi.“
Guðmundur St. Svanlaugsson, fulltrúi rannsóknardeildar lögreglu á Norðurlandi eystra, staðfestir í samtali við mbl.is að embættið hafi málið til rannsóknar.
„Maðurinn hefur ekki verið yfirheyrður ennþá en rannsókn málsins stendur yfir,“ segir Guðmundur.
Þetta er í fyrsta sinn sem mál tengt þessum manni er til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, að sögn Guðmundar.