Gerir heilmikið fyrir bæjarfélagið

Þyrlur á vegum Fast 8 sveima yfir Akranesi
Þyrlur á vegum Fast 8 sveima yfir Akranesi Ljósmynd/Finnur Andrésson

Tökur á stórmyndinni Fast and the Furious 8 fara nú fram á Akranesi en um 400 manns eru í tökuliðinu. Að sögn bæjarstjórans Regínu Ásvaldsdóttur hafa tökurnar skapað mikið líf og fjör í bænum.

„Hér eru þyrlur á sveimi og sport- og herbílar á götunum. Við finnum verulega fyrir þessu,“ segir Regína í samtali við mbl.is. Tökurnar hófust í gær og héldu áfram í dag. Svo verður einnig tekið upp í bænum eftir helgi.

Regína segist fagna komu tökuliðsins á Akranes enda hefur góð áhrif á atvinnulífið. „Það eru mörg verkefni sem iðnaðarmenn og aðrir hafa fengið í kringum þetta. Svo eru björgunarsveitirnar með mjög stórt hlutverk en þær sinna gæslu á tökustað, það er auðvitað frábær tekjulind fyrir þær.“

Hún segist ekki vita hvaða hlutverk umhverfi Akranes hefur í myndinni en hún veit að Ísland muni sjást í myndinni í 10-15 mínútur en eins og kunnugt er hefur einnig verið tekið upp á Mývatni fyrir myndina. Tekið er upp miðsvæðis á Akranesi, á svokölluðum Sementsreit í dag og á hafnarsvæðinu í gær. Þá  þurfti að loka götum vegna myndataka og gefa leyfi fyrir þyrluflugi.

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka