Framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE), Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, hefur sagt starfi sínu lausu frá og með næstu mánaðamótum. Í tilkynningu frá félaginu segist Þorvaldur Lúðvík vera að hverfa til starfa í fyrirtæki í flugtengdri starfsemi.
Staðan verður auglýst á næstunni en Þorvaldur Lúðvík er sagður munu verða félaginu innan handar þar til búið verður að ráða nýjan framkvæmdastjóra.
„Ég hef á undanförnum mánuðum tekið þátt í undirbúningi fyrirtækis í flugtengdri starfsemi, sem liggur auðvitað nærri áhugasviði mínu. Nú lítur út fyrir að þetta geti orðið að veruleika og því rétt að hverfa á braut úr núverandi starfi til að einhenda mér í verkefni á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Þorvaldi Lúðvík í tilkynningunni.
Ráðning Þorvaldar Lúðvíks til Atvinnuþróunarfélagsins árið 2012 var umdeild vegna starfa hans fyrir Saga Capital fyrir hrun. Þá hafði hann stöðu sakbornings í rannsókn sérstaks saksóknara á málum sem tengdust Glitni.
Þorvaldur Lúðvík var svo ákærður ásamt tveimur öðrum í STÍM-málinu svonefnda í febrúar 2014 og óskaði hann eftir tímabundu leyfi frá starfi framkvæmdastjóra AFE í kjölfarið. Hann var dæmdur í átján mánaða fangelsi í héraði fyrir hlutdeild að umboðssvikum í desember. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar í febrúar.
Stjórn AFE gaf frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hún sagðist ekkert ætla að aðhafast í máli framkvæmdastjórans fyrr en gengnum hæstaréttardómi. Þorvaldur Lúðvík fengi að njóta vafans fram að honum.