Varasamt hvassviðri gengur yfir

Á vefnum Windyty.com má fylgjast með lægðinni nálgast landið.
Á vefnum Windyty.com má fylgjast með lægðinni nálgast landið. Skjáskot/Windyty.com

Lögreglan á Vesturlandi varar við óveðri sem nú er víða á Suður- og Suðvesturlandi. Eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát. Vindhviður slá upp í 46 metra á sekúndu undir Hafnarfjalli og alls ekki er ráðlegt að vera með léttar kerrur eða vagna í eftirdragi eða vera á ferðinni á húsbílum.

Búast má við áframhaldandi hvassviðri og úrkomu víðsvegar um landið í dag og næstu daga. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður veðrið einna verst á sunnan- og vestanverðu landinu en vindhraði mun þó aukast á norðan- og austanverðu landinu eftir því sem líður á daginn.

Sjá nánar á veðurvef mbl.is.

„Rigningarskilin eru komin ágætlega inn á suðvestanvert landið. Það á eftir að hvessa fyrir norðan og austan en rigningin er aðallega bundin við sunnan- og vestanvert landið,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Það er miklu minni úrkoma fyrir norðan og sumstaðar verður líklega alveg þurrt, sem er nokkuð hefðbundið þegar þetta kemur upp að suðurströndinni.“

Óli Þór segir að sama skapi að hvassast verði við suður- og vesturströndina, sérstaklega undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi, norðanverðu Snæfellsnesi og við Hafnarfjall. Til að mynda hafi meðalvindhraði við Hafnarfjall verið um 25 m/s í morgun og hviðurnar komnar upp í 46 m/s.

Frétt mbl.is: Varað við roki á Kjalarnesi

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir jafnframt að áfram verði hvasst á suður- og vesturlandi í dag: „Suðaustan 15-23 m/s og vindhviður gætu náð 40-45 m/s við fjöll, einkum undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og á norðanverðu Snæfellsnesi.“

Óli Þór segir að búast megi við áframhaldandi sunnan- eða suðaustanátt næstu vikuna en hann telur að dagurinn í dag verði sá versti: „Þetta verður langverst núna, frá því klukkan 8 eða 9 í morgun og eitthvað frameftir kvöldi. Á spánni núna er gert ráð fyrir að það verði ekki fyrr en eftir 21 í kvöld að það fer að lægja yst á Reykjanesi og síðan færist það hægt og rólega í austur. Þannig að hér í Reykjavík ætti að fara að lægja svona milli 22 og 23. Morgundagurinn er að mörgu leyti ágætur en það er einna helst Suðausturlandið og sunnanverðir Austfirðir sem fá ákveðna rigningu. Það verður ekki alveg þurrt á morgun um landið vestanvert að það verður úrkomulítið. Norðurlandið verður lengst af í fínu veðri.“

Óli Þór segir að um hefðbundna haustlægð sé að ræða. „Þær eru nokkrar sem koma næstu daga, þannig að við fáum alveg nóg. Meðan að hæðin stendur svona sterkt yfir Skandínavíu þá beinir hún eiginlega öllum lægðum hérna vestanvið landið.“

Eins og fram kom í frétt mbl.is í gærkvöld útilokar Veðurstofa Íslands ekki að fellibylurinn Matthew komi við sögu hér á landi á næstunni. Óli Þór segir að líklega muni hann renna inn í einhverja lægðina að lokum: „Hann gerir lægðina kannski öflugri fyrir vikið. En það fylgir þessu yfirleitt bara hlýjandi og meira vatn.“

Frétt mbl.is: Matthew gæti náð til Íslands

Að lokum segir Óli Þór að búast megi við svipuðu veðurlagi á landinu næstu vikuna: „Það er raunverulega ekki að sjá að það fari að snjóa, það er svo hlýtt. En þetta verða vætusamir dagar, sérstaklega á landinu sunnan- og vestanverðu. Norðurland fær hálfgerðan sumarauka, það verður mjög hlýtt þegar svona rakt loft fer yfir hálendið og niður hinumegin.“

Hér má sjá hvernig lægðin er komin upp að landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert