Alls voru 832 umsóknir um atvinnuleysistryggingar sem tengjast vinnslustöðvun í fiskvinnslu skráðar inn í kerfi Vinnumálastofnunar síðdegis þann 29. desember. Elstu umsóknirnar eru frá 15. desember en stærsti hluti þeirra eða 686 umsóknir hafa verið samþykktar. Afgangurinn er í skoðun og má búast við að þær verði flestar samþykktar.
Verkfall sjómanna hefur nú staðið síðan 14. desember og hefur hráefnisskortur gert vart við sig í fiskvinnslum víða um land.
Frétt mbl.is - Uppsagnirnar ekkert einsdæmi
Mánudaginn 19. desember sóttu um 120 manns um atvinnuleysistryggingar og svo daglega á bilinu 80 til 120 fram á Þorláksmessu. Þann 27. desember bárust síðan aftur um 200 umsóknir, 60 daginn eftir það og síðan 35 umsóknir þann 29. desember.
Vinnumálastofnun hefur tekið saman dreifingu uppsagnanna en 37% umsækjenda um atvinnuleysistryggingar vegna vinnslustöðvunar í fiskvinnslu eru búsettir á Norðurlandi eystra, 23% á Suðurlandi og 12% á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Konur eru um 55% þeirra sem um ræðir en karlar 45%. Þá er dreifing eftir aldri nokkuð jöfn en flestir eru á aldinum 30-39 ára. Íslenskir ríkisborgarar eru 51% þeirra sem um ræðir, Pólverjar 36% og 13% fólk af öðru þjóðerni.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir réttindi og bætur þess fólks sem sagt hefur verið upp störfum ráðast af mati á aðstæðum hvers og eins. Dæmi er um að fólk hafi engan bótarétt þar sem það hefur ekki áunnið sér nein réttindi, til dæmis ef það hefur unnið stuttan tíma á íslenskum vinnumarkaði. Í aðstæðum sem þessum eru einu úrræði fólks að leita til sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. „Stéttarfélögin eru ekki að borga neitt ef fólk hefur ekki áunnið sér rétt til bóta eða af einhverjum ástæðum á ekki réttindi,“ segir Gissur. Þá getur fólk einnig reynt að finna sér aðra vinnu en Gissur segir það oft vera þrautinni þyngra á þessum stöðum.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir mörg fyrirtæki hafa haft nægilegt hráefni fram undir jól og því muni koma í ljós um áramót hvernig mál þróast áfram. Eining- Iðja Í Eyjafirði er aðildarfélag Starfsgreinasambands Íslands. Eins og áður sagði eru um 37% umsækjenda um atvinnuleysistryggingar búsettir á Norðurlandi eystra en um 400 manns starfa í fiskvinnslu innan Einingar-Iðju. Um helmingur starfsmanna Einingar-Iðju er nú þegar komnir á atvinnuleysisbætur segir Björn í samtali við mbl.is.