40 milljónir til neyðaraðstoðar

Stríðsátök og hungursneyð hafa hrakið þúsundir á flótta frá Suður-Súdan.
Stríðsátök og hungursneyð hafa hrakið þúsundir á flótta frá Suður-Súdan.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að fela Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) að ráðstafa 40 milljónum íslenskra króna, annars vegar til flóttafólks frá Suður-Súdan sem flúið hefur yfir landamærin til Úganda, og hins vegar til vannærðra íbúa Borno og Yobe héraðanna í norðaustur Nígeríu þar sem hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa tvístrað samfélögum. Af þessum 40 milljónum verður 23 milljónum varið til stuðnings flóttafólki frá Suður-Súdan og 17 milljónum til norðaustur Nígeríu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Ekkert lát er á stríðsátökunum í Suður-Súdan sem hófust árið 2013 og hafa leitt af sér flóðbylgju flóttamanna til nágrannaríkja, einkum Úganda, sem er eitt af þremur samstarfsríkjum Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Yfir landamærin hafa farið meira en 700 þúsund flóttamenn frá upphafi átakanna, þar af rúmlega hálf milljón frá því átökin hörðnuðu um mitt síðasta ár.

Úganda er samkvæmt nýjustu tölum orðið það land í Afríku sem hefur tekið á móti flestum flóttamönnum í álfunni. Fjárskortur hamlar mannúðaraðstoð í flóttamannasamfélögunum í norðurhluta Úganda og því hefur utanríkisráðherra ákveðið að bregðast við neyðinni með sérstakri fjárveitingu til WFP í þágu flóttafólksins. 

Í norðurhluta Nígeríu hefur ríkt vargöld um langt skeið vegna vígasveita Boko Haram sem hafa hrakið á þriðju milljón manna á flótta. WFP telur að 4,5 milljónir manna hafi þörf fyrir matvælaaðstoð, þar af 2 milljónir íbúa í héruðunum Borno og Yobe sem lengi voru óaðgengileg hjálparstarfsfólki. Framlag Íslands til mannúðaraðstoðar í þessum heimshluta verður fyrst og fremst varið til að styðja við konur og börn í þessum héruðum þar sem hungursneyð er að óbreyttu yfirvofandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert