Verjandi Thomasar Møller Olsen hefur fyrir hans hönd áfrýjað niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness. Þar var Thomas dæmdur í nítján ára fangelsi fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur 14. janúar á þessu ári og stórfellt fíkniefnabrot.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur staðfest þetta við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá áfrýjuninni.
Héraðssaksóknari ákærði Thomas fyrir manndráp, samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga, en hann var einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, sem varðar við 173. grein sömu laga. Thomas var sakfelldur fyrir bæði brot en í dómnum er ekki gerður greinramunur á refsingunni.
Hann hafði samkvæmt ákæru rúmlega 20 kíló af kannabisefnum til umráða um borð í togaranum Polar Nanoq, þar sem hann var skipverji. Efnin hugðist hann flytja til Grænlands í ágóðaskyni. Saksóknari krafðist þess að Thomas yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og að fíkniefnin yrðu gerð upptæk.