Peningabúnt sem fundust í bankahólfi í Landsbankanum í Borgartúni, alls 2.331 þúsund krónur, verða ekki afhent eigendum bankahólfsins þar sem talið er að um ávinning af fíkniefnaframleiðslu og -sölu sé að ræða. Þau segja aftur á móti að um arf sé að ræða.
Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í síðustu viku þar að lútandi.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. september 2016 var lögreglu veitt heimild til leitar í geymsluhólfi í Landsbankanum í Borgartúni en skráður leigutaki hólfsins er kona eins þeirra sem eru grunaðir um stórfellda fíkniefnaframleiðslu í Kópavogi.
Í hólfinu fannst reiðufé að fjárhæð 2.331.000 krónur og var það haldlagt eins og áður sagði. Að auki fannst miði, sem sagður var áfastur við búnt af reiðufé sem innhélt 100.000 krónur. Samkvæmt skýrslu um leitina stóð á miðanum: A skuldar enn 520.000.
Nokkrum dögum áður hafði lögreglan stöðvað umfangsmikla fíkniefnaræktun fjölskyldu í Kópavoginum. Alls eru sex aðilar að málinu, faðir og tveir synir hans auk þriggja annarra. Var það annar bróðirinn og eiginkona hans sem fóru fram á að fá féð afhent nú.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. október kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu beinist rannsóknin að stórfelldri ræktun kannabisplantna og sölu afurða ræktunarinnar, auk peningaþvættis.
Við leit í tveimur fasteignum í eigu pabbans í Kópavogi fundust fíkniefnin og ræktunaraðstaðan. Annar bróðirinn hefur viðurkennt að hafa tekið þátt í umræddri starfsemi.
Lögregla telur að umfangsmikil framleiðsla kannabis hafi farið fram í húsnæðinu. Sér rými hafi verið fyrir vökvunarkerfi og næringarblöndun og búið að koma fyrir stórum blásara til að blása lofti út um þak húsnæðisins en kolasíur hafi verið notaðar til að lykt frá framleiðslunni bærist ekki út fyrir húsið.
Á staðnum hafi fundist gögn sem sýnt hafi regluleg tímabil uppskeru og bókhald ræktunar sem og mætingaskrá hlutaðeigandi manna sem starfað hafi við ræktunina. Það sé mat lögreglu að faglega hafi verið staðið að uppsetningu á framleiðslurýminu í heild og lagt hafi verið í talsverðan kostnað. Allar aðstæður á vettvangi hafi gefið lögreglu skýrt til kynna að skipulega hefði verið gengið til verksins af hópi manna með einbeittan ásetning til að fremja stórfelld brot.
Lagt var hald á 522 plöntur sem og 9.391,30 grömm af tilbúnu marijúana. Lagt hafi verið hald á búnað sem notaður hafi verið við framleiðsluna, m.a. gróðurhúsalampa, blásara, viftur, þurrkgrindur, loftsíur o.fl. Þá hafi húsnæðið verið innsiglað vegna vettvangsvinnu og til frekari rannsóknar. Þá hafa fjármunir og lausafé einnig verið haldlagt við rannsókn málsins og eru peningar þeir sem um er deilt í máli þessu þar á meðal.
Kveðst lögregla venju samkvæmt munu gera kröfu fyrir dómi við meðferð væntanlegs ákærumáls um upptöku hinna haldlögðu verðmæta. Sé hér um að ræða, að mati sóknaraðila, muni sem hafi verið notaðir við framkvæmd brotsins og/eða fjármagnaðir með ávinningi af brotastarfseminni sem og fjármuni sem telja verði ávinning af henni.
Þá er því og lýst í greinargerð lögreglu hvernig rannsóknin hafi leitt í ljós að fjármögnun kaupa þeirra tveggja fasteigna sem framleiðslan fór fram í hafi að mestu verið með reiðufé.
Rannsókn hafi leitt í ljós að önnur fasteignin hafi verið keypt í desember 2014 á 27 milljónir króna en hin í nóvember 2015 fyrir 37 milljónir króna. Greitt hafi verið fyrir fasteignirnar að töluverðu leyti með reiðufé. Hafi hinir grunuðu ekki getað gefið trúverðugar skýringar á því hvernig þeir hafi aflað þeirra fjármuna. Telur lögregla skýringuna liggja í því að um sé að ræða afrakstur hinnar ólöglegu brotastarfsemi.
Lögreglan gerði tilraun til að leggja hald á fyrrnefndar tvær fasteignir en án árangurs þar sem þær reyndust hafa verið seldar skömmu áður. Kveðst lögreglan ekki hafa getað haldlagt nema lítinn hluta söluverðmætis fasteignanna þar sem þeim fjármunum hafi verið komið undan og þeir ekki fundist þrátt fyrir tilraunir til þess.
Þá kemur fram í greinargerð lögreglunnar að rannsókn málsins sé margþætt og umfangsmikil og þrír sakborningar, það er faðirinn og synir hans tveir, hafi verið látnir sæta gæsluvarðhaldi.
Dómstólar hafi metið það svo þeir séu allir undir rökstuddum grun um að hafa staðið að framleiðslunni og hafi þeim verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í viku tíma. Þau sönnunargögn málsins sem síðan hefur verið aflað hafi rennt styrkari stoðum undir framangreindan grun.
Í málinu liggi og fyrir játningar sumra sakborninga, þ.á m. annars bróðurins. Allir sakborningar málsins tengist innbyrðis, þar af fjórir af fimm fjölskylduböndum. Gögn málsins og framburður tveggja sakborninga beri það skýrt með sér að bróðirinn, sem hefur játað og óskaði jafnframt eftir því að fá peningana afhenta, sé einn af aðalskipuleggjendum umræddrar brotastarfsemi.
Að sögn lögmanns mannsins sem vildi fá peningana afhenta er málum þannig háttað að í janúar 2014 fékk maðurinn arf að fjárhæð 18.821.011 krónur. Sýni skattframtal hans að hann hafi greitt skatt af arfinum árið 2014.
Kona hans hafi haft fullt umboð til að veita arfinum viðtöku og hafi hann verið greiddur inn á reikning hennar eins og gögn sýni. Hafi hún tekið fjármunina út af reikningi sínum og geymt þá í umræddu geymsluhólfi. Þaðan hafi hún reglulega tekið reiðufé t.d. til að fjármagna fasteignaviðskipti og bifreiðakaup.
Megi sjá þetta allt af gögnum um hreyfingar peninga á reikningum hennar, sem og skrá yfir tímasetningu heimsókna í umrætt geymsluhólf, sem þau hafi lagt fram. Það sem eftir hafi verið af arfinum hafi enn verið í geymsluhólfinu þegar leit lögreglu hafi farið fram og hald lagt á féð.
Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra segir að þeir sem taldir eru umfangsmestir á sviði kannabisræktunar hérlendis komi yfirleitt ekki með beinum hætti nálægt daglegu vafstri vegna starfseminnar.
„Þó eru undantekningar á þessu. Í einu athyglisverðasta málinu á tímabilinu var stöðvuð umfangsmikil ræktun sem íslensk fjölskylda hafði staðið að um skeið,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.