Tölvuglæpir og nettengd afbrot af margvíslegu tagi eru í vaxandi mæli hluti af viðfangsefnum lögreglu.
„Stjórnendasvindl (e. CEO Fraud ) hefur verið viðvarandi síðustu misserin og veldur mestum fjárhagslegum skaða af þeim netglæpum sem koma á borð lögreglu, segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem birt var í morgun.
Gíslataka gagna er vel þekkt erlendis og dæmi eru um að Íslendingar og íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir slíkum árásum. „Business E-mail Compromise“ eru svik þar sem fjármálastjóri fyrirtækis eða gjaldkeri er með tölvupósti blekktur til að millifæra greiðslu fyrir vöru eða þjónustu á tiltekinn reikning og viðtakandi telur að um fyrirmæli forstjóra eða viðskiptavinar sé að ræða. Þar er oftast tilgreint í tölvupóstinum „sent from my iPhone”. Með samvinnu lögreglu og fjármálaeftirlits (FME) hefur tekist að stöðva greiðslur sem hafa átt að fara á reikninga erlendis, segir í skýrslunni.
Svonefnd „PBX-Scams“ hafa átt sér stað hér á landi. Brotist er inn í símkerfi fyrirtækja utan skrifstofutíma þegar það er ekki í notkun og símar látnir hringja í erlend gjaldskyld númer.
„Þau mál sem valdið hafa einstaklingum mestum skaða frá því að skýrsla greiningardeildar um tölvu- og netglæpi 29 kom út í marsmánuði 2016 varða skipulagða blekkingavefi (e. Social Engineering eða Romance Scam).
Fórnarlambið, karl eða kona, kynnist á samfélagsmiðlum svikurum sem spinna lygasögu í þeim tilgangi að vinna trúnað og skapa væntingar þess áður en óskað er eftir peningagreiðslum/fjárhagsaðstoð til að koma á nánara sambandi sem aldrei verður af.
Dæmi eru um að einstaklingar hafi verið tældir til að bera sig frammi fyrir vefmyndavél og hafi í kjölfarið sætt fjárkúgun,“ segir enn fremur í skýrslu ríkislögreglustjóra.
Leigusvindl í gegnum auglýsingar á vefsíðum er reglulega tilkynnt til lögreglu. Þá er t.d. auglýst til leigu íbúð án nokkurrar aðkomu eiganda í þeim tilgangi að blekkja fólk til að inna af hendi fyrirframgreiðslur. Aðaláhættuhópurinn er útlendingar/ferðamenn á Íslandi.
Kortanúmeraveiðar eða „Phishing“ á ensku eru ein útbreiddasta tegund tölvu- og netglæpa sem berast lögreglu. Dæmi um slíkar „veiðar“ er þegar einstaklingar gefa upp kortaupplýsingar á vefsíðu í von um endurgreiðslu á þjónustu sem viðkomandi hefur verið tilkynnt í tölvupósti að hafi verið ofgreidd. Fjöldi Íslendinga hefur fallið í þá gildru síðustu ár.
Dæmi er um tölvupóst af þessu tagi þar sem stofnað hefur verið falskt lén til að láta líta út fyrir að sendandi sé fyrirtæki eða lögaðili. Vitað er að árás af þessu tagi hefur valdið miklu tjóni.