Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa á annað hundrað manns á síðustu tveimur árum tengst fíkniefnamálum sem flokkast undir skipulagða brotastarfsemi, innflutning, framleiðslu og sölu.
Hugviti glæpamanna við innflutning fíkniefna eru lítil takmörk sett. Þannig var í einu tilviki efni sem unnt var að vinna kókaín úr mótað í ferðatösku. Slík starfsemi krefst þekkingar og fjármagns. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
„Íslenskir karlmenn eru í meirihluta gerenda en hlutur erlendra ríkisborgara er umtalsverður. Í rúmlega þriðjungi mála eru sakborningar útlendingar. Meðalaldur sakborninga er 35 ár, þeir yngstu eru 21 árs og sá elsti 68 ára,“ segir í skýrslunni.
Kannabismarkaðurinn á Íslandi hefur verið sjálfbær í tæpan áratug. Ræktun á kannabisefnum hefur augljóslega stóraukist og framboð er stöðugt og mikið. Sala og dreifing fíkniefna í lokuðum hópum á samfélagsmiðlum hefur viðgengist um hríð en takmarkað eftirlit er af hálfu lögreglu vegna manneklu.
„Fullyrða má að fíkniefnaneysla hafi aldrei verið meiri í Íslandssögunni. Augljóslega er fjölgun ferðamanna þáttur í því hversu hratt fíkniefnamarkaðurinn hefur stækkað hér á landi; ferðamenn neyta fíkniefna rétt eins og heimamenn. Landsmönnum fjölgar og innflytjendum einnig.
Sagan kennir einnig að efnahagsástand hefur mótandi áhrif á fíkniefnamarkaði. Dýrari efni fylgja efnahagslegri uppsveiflu. Fleiri þættir hafa mótandi áhrif á markað og neyslu fíkniefna. Þannig getur t.d. jákvæð umræða um neyslu fíkniefna haft þau áhrif að neysla aukist,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
Menningarlegir og félagslegir þættir sem móta tíðarandann hverju sinni hafa áhrif á neyslu fíkniefna.
„Það er verkefni alls samfélagsins að bregðast við þeirri vá sem af fíkniefnum stafar. Innan lögreglu og meðal stjórnenda hennar er sú skoðun ríkjandi að lögleiðing fíkniefna sé óforsvaranleg.
Lögreglan verður nær daglega vitni að hörmulegum afleiðingum fíkniefnaneyslu og er sérstaklega erfitt þegar ungmenni eiga hlut að máli.“
Á Íslandi hefur fíkniefnaneysla að mestu haldist í svipuðum farvegi hin síðari ár; mest hefur borið á örvandi efnum og kannabis sem framleitt er hér á landi. Svo er enn. Á hinn bóginn liggja fyrir upplýsingar um tilvik þess að neytt sé dýrari og sterkari fíkniefna og verkjalyfja. Neyslumynstur kann því að taka breytingum.
„Neysla á nýjum verksmiðjuframleiddum vímu- og ofskynjunarlyfjum hefur aukist verulega á Norðurlöndum á síðustu árum og ástæða er til að ætla að sú þróun haldi áfram. Einnig hefur styrkur og hreinleiki margra algengra fíkniefna aukist, m.a. kannabis, amfetamíns og MDMA.
Áhrif internetsins á fíkniefnamarkaðinn fara stöðugt vaxandi bæði hvað varðar framboð og markaðssetningu, sölu og dreifingu. Sömuleiðis stuðlar internetið að hraðari útbreiðslu nýrra strauma og tísku og veitir afbrotamönnum aukna færni og þekkingu hvað varðar ræktun og framleiðslu,“ segir í skýrslu ríkislögreglustjóra.
Skipulögð brotastarfsemi er hvað greinilegust í innflutningi, framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna á Íslandi. Ljóst er að þessi markaður veltir gífurlegum fjármunum og starfsemin er þaulskipulögð hjá mörgum þeirra afbrotahópa sem nærri koma.
Fyrirliggjandi upplýsingar eru á þann veg að hópum hafi fjölgað frá síðustu skýrslu árið 2015 og að meðaltali hafi á síðustu tveimur árum komið upp eitt fíkniefnamál í hverjum mánuði þar sem umfang málsins og fjöldi þeirra sem við sögu koma eru vísbendingar um skipulagða brotastarfsemi.
Á Íslandi hefur þróunin í ræktun kannabis verið í þá átt að þeir umsvifamestu standa samtímis að nokkrum ræktunum í stað þess að binda alla framleiðsluna við eina stóra „verksmiðju“. Ræktanir finnast reglulega bæði eftir ábendingar frá almenningi og eftir frumkvæðisvinnu lögreglu. Stærri ræktanir finnast almennt ekki nema með frumkvæðisrannsókn lögreglu.
„Framleiðsla kannabis er í mörgum tilvikum skipulögð af hópum afbrotamanna. Algengt er að einum geranda sé falið að „leppa“ leigu á húsnæði eða taka á sig sök ef upp kemst um ræktunina. Oftast verður fyrir valinu einhver sem ekki hefur áður komist í kast við lögin.
Þeir sem taldir eru umfangsmestir á sviði slíkrar ræktunar hérlendis koma yfirleitt ekki með beinum hætti nálægt daglegu vafstri vegna starfseminnar. Þó eru undantekningar á þessu. Í einu athyglisverðasta málinu á tímabilinu var stöðvuð umfangsmikil ræktun sem íslensk fjölskylda hafði staðið að um skeið,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
Stórfelld og skipulögð ræktun á kannabis skapar mikinn hagnað með lítilli fyrirhöfn og lítilli áhættu m.a. sökum vægra refsinga, segir í skýrslunni.
„Reynsla lögreglu er sú að Íslendingar komi einkum við sögu í ræktun kannabis hérlendis. Oft eru gerendur ungir karlmenn sem fá skjótfenginn gróða af ræktun og sölu.
Þess þekkjast dæmi að ræktanir séu liður í fjármögnun húsbygginga og fari fram í húsnæðinu þegar það er fokhelt.“
Neysla kókaíns virðist aukast ört líkt og á síðasta hagvaxtarskeiði. Frá 2015 hafa mörg „burðardýr“ verið tekin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með kókaín, oft á leið frá Hollandi. Þessi þróun sýnir engin merki þess að ganga til baka.
Í ár hefur lögregla orðið vör við mikla aukningu í innflutningi á fíkniefnum til landsins í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar ræður mestu mikil aukning í innflutningi á kókaíni og er þetta eitt skýrasta dæmið um aukin umsvif skipulagðra brotahópa á Íslandi og alþjóðlegar tengingar þeirra. Hluti þessa innflutnings tengist erlendum glæpahópum á Íslandi.
Einnig hefur lögregla á undanförum tveimur árum orðið vör við innflutning á hráefnum til framleiðslu fíkniefna. Nefna má fljótandi amfetamínbasa og fljótandi kókaín.
Framboð á amfetamíni er mikið og stöðugt og þróunin virðist í þá átt að styrkleiki efnanna sé meiri en áður hefur þekkst. Vitað er að erlendir glæpahópar stunda innflutning og framleiðslu amfetamíns og amfetamínbasa hér á landi. Telur lögregla að hlutur þeirra á amfetamínmarkaði sé ráðandi.
„Upplýsingar liggja fyrir um að í landinu starfi erlendir glæpahópar sem hagnast hafi gífurlega af innflutningi og framleiðslu sterkra fíkniefna. Kristallað metamfetamín (e. Crystal Meth), sem er afar sterkt og ávanabindandi fíkniefni, hefur í fyrsta skipti sést auglýst hér á landi.
Samkvæmt þeirri auglýsingu er markaðsverð efnisins afar hátt, rúmar 80 þúsund krónur grammið. Verð á þessu efni er mjög breytilegt á Vesturlöndum.
Afleiðingar af neyslu metamfetamíns eru mjög alvarlegar og algengt er að hún leiði til dauða. Þá hefur á síðustu misserum borið nokkuð á því að MDMA-töflur eða -duft innihaldi mun meira af virka efninu en áður.
Þetta er í samræmi við þróun á meginlandi Evrópu og almennt má segja að styrkur virkra efna í fíkniefnum á Íslandi fari vaxandi,“ segir í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.
Borið hefur á miklu framboði á sterkum verkjalyfjum á síðustu misserum. Í lokuðum hópum á Facebook viðgengst sem fyrr blómleg sala á fíkniefnum og lyfseðilsskyldum lyfjum.
Fíkniefni og verkjalyf ganga kaupum og sölum – í sumum tilvikum er þá skipst á kókaíni og sterkum verkjalyfjum. Morfínplástrar eru misnotaðir og þekkt eru dæmi um alvarlegar afleiðingar af þeirri misnotkun, jafnvel dauðsföll.
„Verkjalyfin eru mjög ávanabindandi og sala þeirra ábatasöm. Þessi málaflokkur er lögreglu erfiður, hann fellur undir lyfjalöggjöf og lítil áhætta fylgir ólöglegri sölu og dreifingu sterkra verkjalyfja.
Það er mat lögreglu að hér á landi starfi skipulagðir hópar brotamanna sem búi margir hverjir yfir umtalsverðum styrk og fjármagni. Eftir því sem hópar þessir eflast verður örðugra fyrir lögreglu að sporna gegn starfsemi þeirra. Þeir eiga auðveldara með að fela slóð sína og fjárhagslegur styrkur gerir þeim kleift að kaupa sérfræðiþekkingu og fela ágóða starfseminnar í löglegum rekstri,“ segir í skýrslunni.
Peningaþvætti af þeim toga getur haft bein áhrif á markaði t.d. vegna betri samkeppnisstöðu sem ólöglegur ábati tryggir. Hlutafélagaeign, fjárfestingar, fasteignaviðskipti og lánastarfsemi eru dæmi um hvernig illa fengnu fé er ráðstafað í því skyni að fela uppruna þess.
„Sem dæmi um fjárhæðir sem við sögu koma í fíkniefnamálum skal nefnt að í tveimur málum sem upp komu innan tiltekins lögregluembættis var söluverðmæti þeirra fíkniefna sem hald var lagt á um 90 milljónir króna. Að auki var lagt hald á milljónir í reiðufé og starfsemin fór fram í íbúðum sem leigðar höfðu verið gagngert í þessu skyni,“ segir í skýrslu ríkislögreglustjóra.