Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi, sem kom út í gær, kemur fram að styrkja verði rannsóknardeildir lögreglu og fjölga lögreglumönnum umtalsvert til að hægt verði að sporna við skipulagðri brotastarfsemi í landinu. Áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi er nú „mikil áhætta“ að því er fram kemur í skýrslunni.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vill vara við því að upphlaup verði vegna skýrslunnar, þrátt fyrir að hún dragi upp ansi dökka mynd af ástandinu. „Engu að síður er það þannig að við teljum okkur vanta bjargir til að takast á við þetta með sóma. Eins og við teljum að þurfi að gera. Það er staðreyndin með skipulagða brotastarfsemi að það þarf að beita ákveðnum aðferðum til að takast á við hana, sem eru kannski ekki þær sömu og notaðar eru við hefðbundin brot,“ segir Grímur. Hann vill þó ekki fara nánar út í það um hvernig aðferðir er að ræða, en þær séu mannskapsfrekar.
Í skýrslunni segir að ljóst sé að dregið hafi úr getu lögreglu til að sinna mörgum þeim málaflokkum er falla undir hugtakið skipulögð glæpastarfsemi. Jafnframt segir að eftir því sem skipulögð glæpastarfsemi aukist og verði alvarlegri hafi það áhrif á öryggisstigið í landinu. Álagið á almenna löggæslu aukist, sem og rannsóknardeildir. Þá kalli slík aukning í skipulagðri glæpastarfsemi einnig á stóraukna frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna.
„Til að geta tekið á þessu og stemmt stigu við þessu þá þurfum við meiri mannskap. Það er bara þannig. Ekki nema að taka hann úr einhverju öðru og við teljum okkur ekki geta gert það.“ Grímur segir að það myndi einfaldlega bitna á annarri löggæslu.
Í skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram að lagt hafi verið til árið 2013 að lögreglumönnum yrði fjölgað úr 712 í 860 á árunum 2014 til 2017. Það eru hins vegar ekki nema 660 lögreglumenn starfandi í dag og því ljóst að um 200 lögreglumenn vantar til starfa. „Stærstur hlutinn af þeirri tölu væri hjá okkur, því við erum með næstum helminginn af lögregluliðinu í landinu,“ segir Grímur og vísar þar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Í skýrslunni kemur fram að vitað sé um að minnsta kosti tíu hópa sem séu virkir í skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi, eins og fíkniefnabrotum, mansali og vændi. Ekki hefur verið ófriður á milli þessara hópa upp á síðkastið, en þannig var það á tímabili, að sögn Gríms.
„Það er eðli svona skipulagðrar brotastarfsemi, ef brotahópunum lendir saman, þá er ekkert endilega verið að tilkynna lögreglu um það, og það er alvarlegt. Þá eru kannski brot framin, lögreglu ekki tilkynnt um þau og undirheimarnir taka á þeim sjálfir. Þetta er eitt af því sem er alvarlegt við að það nái að skjóta hér rótum brotahópar.“
Hóparnir samanstanda bæði af Íslendingum og erlendum aðilum, en eru þó lítið blandaðir innbyrðis. Algengt er að hóparnir séu í fleiri en einni tegund brota, að sögn Gríms og vísar hann til skýrslna sem gefnar hafa verið út á Norðurlöndunum og hjá Europol. „Þá er staðreyndin sú að menn eru í skipulagðri brotastarfsemi til að hagnast á henni og þá eru menn í því sem hægt er að hagnast á.“
Hann segir lögreglu hins vegar ekki hafa orðið sérstaklega vara við að íslensku hóparnir séu í vændisstarfsemi. Það þurfi engu að síður að fylgjast vel með því. „Við höfum verið með það til rannsóknar hvort hingað séu sendar konur af einhverjum glæpasamtökum til að stunda vændi, sem eigi svo að skila ágóðanum af því til þeirra.“
Grímur segir mestu hættuna við að skipulögð brotastarfsemi fái að blómstra vera að fjármunir, sem verði til við ólöglega iðju, verði með einhverjum hætti gerðir löglegir. „Að við fáum ólögmæta fjármuni inn í lögmæta starfsemi. Mér finnst það eitthvað til að hafa áhyggjur af.“
Í skýrslunni kemur fram að skipulögð brotastarfsemi sé iðulega samofin löglegum rekstri fyrirtækja og því sé mikilvægt að rannsaka skattahluta brotastarfseminnar. Enda geti brotamönnum reynst erfitt að gera grein fyrir hagnaði, tekjum eða eignum sem aflað er með ólögmætum hætti. Þá kemur fram að upptaka ólöglegs ávinnings sé úrræði sem margir lögreglumenn telji vannýtt.
Aðspurður hvaða brotastarfsemi sé mikilvægast að uppræta, ef það þurfi að forgangsraða, segir hann: „Það sem við viljum beina athyglinni að núna, ef við þyrftum að forgangsraða, það er mansalið. Við viljum geta rannsakað mál þar sem brotaþoli er eins augljós og í slíku máli. Ef viðkomandi er þvingaður til einhvers og getur ekki farið þá viljum við taka á því.
Grímur á þar bæði við vinnumansal og vændismansal og vill síður segja að annað sé alvarlegra en hitt, þó að vissulega sé kynferðisofbeldi mjög alvarlegur hlutur.