Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, kemur fram að lögreglu sé kunnugt um að umsækjendur um alþjóðlega vernd misnoti móttökukerfi hér á landi með því að leggja fram tilhæfulausar umsóknir og stunda „svarta atvinnu“ eða brotastarfsemi á meðan mál þeirra eru til umfjöllunar. Viðkomandi komi þá jafnvel hingað til lands án skilríkja eða framvísi eingöngu ljósmynd af vegabréfi.
Ef grunur leikur á því hjá Útlendingastofnun að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi komið hingað til lands til að stunda svarta atvinnu, eða ef stofnunin fær ábendingar um að einstaklingar séu í vinnu án þess að hafa tilskilin leyfi, þá er málum vísað áfram til lögreglu eða Vinnumálastofnunar, sem sinna eftirlitinu, að sögn upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar.
Þau úrræði sem Útlendingastofnun getur gripið til er að draga úr eða svipta viðkomandi þeirri þjónustu sem einstaklingar sem sækja um alþjóðlega vernd eiga rétt á, líkt og húsnæði, framfærslu og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
„Ef að einhver verður uppvís að því að vinna ólöglega og býr í úrræði frá okkur og þiggur þjónustu, þá getum við gripið til aðgerða varðandi þjónustuna. Það hefur hins vegar ekki áhrif á umsóknina um vernd sem slíka. Það er fátt sem hefur áhrif á hana,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar.
Í lögum um útlendinga segir að „ef í ljós kemur að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafði ekki þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var getur Útlendingastofnun krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að fullu eða nokkru leyti.“
Í skýrslu greiningardeildarinnar kemur einnig fram að einstaklingar snúi gjarnan aftur til landsins eftir að umsókn þeirra hafi verið hafnað og framvísi þá réttum skilríkjum. Tilgangurinn sé þá að taka upp fyrri iðju aftur. Í skýrslunni er hins vegar tekið fram að ekki sé öruggt í öllum tilfellum að viðkomandi einstaklingar beri sjálfir ábyrgð á misnotkun á móttökukerfinu. „Vera kann að skipulögð glæpstarfsemi á Íslandi og í Evrópu misnoti markvisst þessa einstaklinga á þennan veg,“ segir í skýrslunni.