Guðni Einarsson
„Skýrslan dregur það fram að við búum við sömu áhættu og löndin í kringum okkur hvað glæpastarfsemi varðar,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu í dag um skýrslu ríkislögreglustjóra, Skipulögð glæpastarfsemi 2017, sem birt var í gær.
Hún kveðst hafa lagt áherslu á að tryggja meira fé til löggæslumála, eins og fram hafi komið í fjármálaáætlun. Þar sé m.a. gert ráð fyrir því að framlög til lögreglunnar, sem hafa verið tímabundin, verði gerð varanleg.
„Ég hef lagt áherslu á að styrkja þurfi lögregluembættin,“ sagði Sigríður. Hún benti á aukið álag á lögregluna vegna fjölgunar ferðamanna og dvalar erlendra ríkisborgara hér. Sigríður kveðst taka undir það sem segir í skýrslunni að efla þurfi rannsóknardeildir og gera lögreglunni betur kleift að sinna frumkvæðisvinnu.