Hætti vegna Panamaskjala en fær laun

Kári Arnór Kárason.
Kári Arnór Kárason.

Stjórn Stapa líf­eyr­is­sjóðs lýs­ir von­brigðum með dóm Héraðsdóms Norður­lands eystra í máli sem fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri sjóðsins höfðaði vegna starfs­loka sinna vorið 2016 eft­ir að nafn hans kom upp í Pana­maskjöl­un­um. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu sem stjórn­in sendi frá sér. Héraðsdóm­ur tel­ur að fram­kvæmda­stjór­inn fyrr­ver­andi eigi rétt á laun­um á upp­sagna­fresti, and­stætt því sem stjórn­in tel­ur.

Kári Arn­ór Kára­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri sjóðsins, tengd­ist tveim­ur fé­lög­um sem voru í Pana­maskjöl­un­um og lét hann af störf­um eft­ir að hann fékk upp­hring­ingu frá Kast­ljósi þar sem hann var spurður út í þau. Í yf­ir­lýs­ingu sem hann sendi út í kjöl­farið sagði hann ekki boðlegt að maður í hans stöðu tengd­ist slík­um fé­lög­um. Hann sagðist jafn­framt eng­an ávinn­ing hafa haft af fé­lög­un­um og að þau tengd­ust ekki skattaund­an­skot­um.

Í til­kynn­ingu frá stjórn­inni nú seg­ir að sam­skipti Kára og stjórn­ar líf­eyr­is­sjóðsins á þeim tíma hafi gefið til­efni til mis­mun­andi túlk­un­ar á eðli starfs­lok­anna.

„Stjórn tel­ur að fram­kvæmda­stjór­inn hafi með yf­ir­lýs­ingu sinni á vef sjóðsins um starfs­lok sín látið fyr­ir­vara­laust af starfi og þar með fyr­ir­gert rétti sín­um til launa á upp­sagn­ar­fresti. Stjórn­in leitaði þess vegna eft­ir áliti þriggja lög­manns­stofa á sín­um tíma og álit þeirra voru öll á eina lund og gagn­stæð niður­stöðu dóms­ins. Í ljósi þess taldi stjórn­in sér ekki stætt að greiða fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra laun á upp­sagn­ar­fresti án dómsniður­stöðu í mál­inu. Dóm­ari héraðsdóms var ekki á sama máli og dæmdi fram­kvæmda­stjóra rétt til launa á upp­sagn­ar­fresti.“

Stjórn Stapa líf­eyr­is­sjóðs seg­ist harma það tjón sem málið veld­ur sjóðsfé­lög­um og mun nú fara yfir dóm­inn í heild, sem og máls­gögn og kanna með lög­mönn­um sín­um mögu­leika til áfrýj­un­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert