Stjórn Stapa lífeyrissjóðs lýsir vonbrigðum með dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli sem fyrrverandi framkvæmdastjóri sjóðsins höfðaði vegna starfsloka sinna vorið 2016 eftir að nafn hans kom upp í Panamaskjölunum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórnin sendi frá sér. Héraðsdómur telur að framkvæmdastjórinn fyrrverandi eigi rétt á launum á uppsagnafresti, andstætt því sem stjórnin telur.
Kári Arnór Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri sjóðsins, tengdist tveimur félögum sem voru í Panamaskjölunum og lét hann af störfum eftir að hann fékk upphringingu frá Kastljósi þar sem hann var spurður út í þau. Í yfirlýsingu sem hann sendi út í kjölfarið sagði hann ekki boðlegt að maður í hans stöðu tengdist slíkum félögum. Hann sagðist jafnframt engan ávinning hafa haft af félögunum og að þau tengdust ekki skattaundanskotum.
Í tilkynningu frá stjórninni nú segir að samskipti Kára og stjórnar lífeyrissjóðsins á þeim tíma hafi gefið tilefni til mismunandi túlkunar á eðli starfslokanna.
„Stjórn telur að framkvæmdastjórinn hafi með yfirlýsingu sinni á vef sjóðsins um starfslok sín látið fyrirvaralaust af starfi og þar með fyrirgert rétti sínum til launa á uppsagnarfresti. Stjórnin leitaði þess vegna eftir áliti þriggja lögmannsstofa á sínum tíma og álit þeirra voru öll á eina lund og gagnstæð niðurstöðu dómsins. Í ljósi þess taldi stjórnin sér ekki stætt að greiða fyrrverandi framkvæmdastjóra laun á uppsagnarfresti án dómsniðurstöðu í málinu. Dómari héraðsdóms var ekki á sama máli og dæmdi framkvæmdastjóra rétt til launa á uppsagnarfresti.“
Stjórn Stapa lífeyrissjóðs segist harma það tjón sem málið veldur sjóðsfélögum og mun nú fara yfir dóminn í heild, sem og málsgögn og kanna með lögmönnum sínum möguleika til áfrýjunar.