Gleymst hafi að kynna landsmönnum hersetu

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. Ljósmynd/Samfylkingin

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, byrjaði sína ræðu á að tala um það góða nafn sem Íslendingar hafa skapað sér vegna afstöðu til jafnréttis kynjanna, umhverfismála, málefna Norðurslóða, loftslagsmála, réttindamálum samkynhneigðra og þegar kemur að sjálfstæðisbaráttu ríkja.

„Þess vegna vakti það athygli þegar forsætisráðherra lýsti afstöðu sinni til þeirrar eldflaugar er Donald Trump bandaríkjaforseti skaut í hjartastað friðarumleitana milli Ísraela og Palestínumanna á dögunum. Sagði forsætisráðherra ákvörðun Trump um að lýsa Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels vera vonbrigði. Var þetta áréttað í stefnuræðunni í kvöld, þar sem þetta var sagt dapurlegt.“

Helga Vala sagði Íslendinga ennþá herlausa þjóð og því í kjöraðstæðum til að taka skýra afstöðu með friði og gegn stríði í heiminum, afstöðu gegn valdamiklum körlum sem sækjast í ófrið og átök. „Helstu þjóðarleiðtogar hafa ýmist fordæmt þessar gjörðir bandaríkjaforseta eða lýst yfir megnri andúð. En ríkisstjórn Íslands virðist aðallega vera döpur og hafa orðið fyrir vonbrigðum með þessar ákvarðanir Trump. Þannig virðist þessari stjórn vera það lífsins ómögulegt að taka einarða afstöðu gegn því verki Donalds Trump sem við nú fylgjumst með.“

Hún gagnrýndi einnig að gleymst hafi að kynna landsmönnum að búið væri að heimila hersetu á Íslandi á nýjan leik, en bandaríski sjóherinn hefur fengið fjárframlag til að gera endurbætur á flugskýlum hersins hér á landi á næstu árum.

„Ríkisstjórnin talar um vonbrigði og dapurleika vegna ákvarðana Donalds Trump. Ríkisstjórnin kynnti í dag fjárlög sín fyrir komandi ár hvar hún ánafnar sjálfri sér 20 milljónir í viðbótarframlag til kynningarmála stjórnarráðsins. Þessi ríkisstjórn sem í stjórnarsáttmála talar um loftslag og sókn gegn ofbeldi í miðri Me Too byltingu ætlar nákvæmlega sömu fjárhæð, eða 20 milljónir í þjónustu við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis á Neyðarmóttökum um allt land sem og í heildarvinnu vegna loftslagsmála. Sama fjárhæð er hugsuð í þessa þrjá hluti, viðbótarframlag til kynningarmála ríkisstjórnar, þjónustu við þolendur ofbeldis og loftslag. Þetta, góðir landsmenn er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þarna birtist hún svart á hvítu.“

Svo ég taki orð forsætisráðherra mér í munn þá lýsi ég því hér með yfir að þetta eru mér vonbrigði og ég er einlæglega döpur yfir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar á hennar fyrstu dögum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert