Illa fengið fé í íslensk fyrirtæki

Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn …
Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír Pólverjar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 22. desember í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu smygli og framleiðslu á fíkniefnum, fjársvik og peningaþvætti hér á landi. Mennirnir eru grunaðir um að hafa komið ólöglega fengnu fé inn í rekstur fyrirtækja á Íslandi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins og mbl.is var meðal annars gerð húsleit í pólsku fyrirtæki sem rekur verslanir hér á landi, Euromarket. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segist ekki geta staðfest þetta í samtali við mbl.is.

Rannsókn málsins hófst árið 2014 í Póllandi en íslenska lögreglan kom inn í rannsóknina haustið 2016. 

Mennirnir þrír voru handteknir í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra klukkan sex að morgni 12. desember sl., en alls voru 20 manns handteknir þann dag í samræmdum aðgerðum lögregluyfirvalda á Íslandi, Póllandi og Hollandi. Íslenska lögreglan lagði hald á fimm bíla, innistæður í bönkum og eignarhluti í fyrirtækjum ásamt því að kyrrsetja fasteignir í eigu hinna handteknu.

Grímur Grímsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við Morgunblaðið að grunur leiki á að kyrrsettu eignirnar og haldlagt lausafé sé allt tilkomið vegna gróða af ólöglegri starfsemi. Aðspurður segir hann að um sé að ræða íslensk fyrirtæki sem mennirnir áttu hlut í. Spurður hvenær eftirlit með mönnunum þremur hafi hafist hér á landi segir Grímur það hafa verið haustið 2016.

„Þá var fundað með pólskum lögregluyfirvöldum, en íslenskir lögreglustjórar og tollstjórinn hér funduðu með pólskum lögreglustjóra hjá Europol í Haag.“ Grímur vildi ekki svara því um hvers konar eftirlitsaðgerðir væri að ræða. Þá segir hann lögregluyfirvöld í löndunum þremur ánægð með gott samstarf.

Í aðgerðunum hér á landi voru fimm menn handteknir og þrír þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þá var lagt hald á eignir að verðmæti nærri 200 milljónir króna og þær kyrrsettar. Má þar nefna fasteignir, lausafé og hlutafé í íslenskum fyrirtækjum.

Samtals tóku þátt í aðgerðunum hér á landi yfir níutíu starfsmenn lögreglu og tollgæslu. Á þeim tíma sem rannsóknin hefur staðið yfir hér á landi hafa verið til rannsóknar nokkur mál er varða innflutning á fíkniefnum til landsins. Í tengslum við þau mál hafa verið handteknir nokkrir pólskir ríkisborgarar. Að sögn Gríms hafa tæplega 20 manns verið handteknir hér á landi í tengslum við þær rannsóknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert