Tveir Pólverjar, sem hafa verið í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu smygli og framleiðslu á fíkniefnum, fjársvik og peningaþvætti hér á landi, verða leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur nú rétt á eftir þar sem ákvörðun verður tekin um áframhaldandi varðhald. Þriðja manninum, sem handtekinn var í tengslum við málið, var sleppt síðastliðinn miðvikudag. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir mönnunum rennur út í dag.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa komið ólöglega fengnu fé inn í rekstur fyrirtækja á Íslandi. Rannsókn málsins hófst árið 2014 í Póllandi en íslenska lögreglan kom inn í rannsóknina haustið 2016.
Mennirnir þrír voru handteknir í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra klukkan sex að morgni 12. desember síðastliðinn, en alls voru 20 manns handteknir þann dag í samræmdum aðgerðum lögregluyfirvalda á Íslandi, í Póllandi og Hollandi. Íslenska lögreglan lagði hald á fimm bíla, innistæður í bönkum og eignarhluti í fyrirtækjum ásamt því að kyrrsetja fasteignir í eigu hinna handteknu.