Mennirnir tveir sem hafa verið í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu smygli og framleiðslu á fíkniefnum, fjársvik og peningaþvætti hér á landi hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 12. janúar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer fram á framlengt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Mennirnir munu því verða áfram í einangrun.
Þriðja manninum, sem handtekinn var í tengslum við málið, var sleppt síðastliðinn miðvikudag.
Mennirnir, sem eru pólskir ríkisborgarar, voru handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglu- og tollyfirvalda fyrir tíu dögum. Rannsókn málsins teygir anga sína til bæði Póllands og Hollands og er unnin í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld, auk Europol og Eurojust.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa komið ólöglega fengnu fé inn í rekstur fyrirtækja á Íslandi. Rannsókn málsins hófst árið 2014 í Póllandi en íslenska lögreglan kom inn í rannsóknina haustið 2016.
Frétt mbl.is: Illa fengið fé í íslensk fyrirtæki
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu miðar rannsókn málsins vel.