Málið sem skók íslensku þjóðina

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Mikið álag hefur verið á starfsfólki miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarið ár. Deildin og stjórnandi hennar, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, voru á allra vörum í janúar þegar ung kona, Birna Brjánsdóttir, hvarf og fannst síðar látin. Fjölmörg stór mál hafa komið upp á síðustu misserum og segir Grímur að miðað við verkefnin hefðu 100 manns nóg að gera. Starfsmenn miðlægu rannsóknardeildarinnar eru aftur á móti ekki nema 45.

„Þetta þýðir að við erum að margnýta alla starfsmenn nema þá helst starfsmenn í kynferðisbrotum enda lögð áhersla á að sú vinna verði fyrir sem minnstri truflun,“ segir Grímur.

Miðlægu rannsóknardeildinni er skipt í tvennt. Annars vegar kynferðisbrotamál og hins vegar allt annað, það er skipulögð brotastarfsemi, hatursglæpir, auðgunarbrot, fíkniefnamál, ofbeldisbrot, vændis- og mansalmál.

Fáliðuð lögregla nær ekki að sinna öllum verkefnunum

Grímur segir að það gefi auga leið að deildin nái ekki að sinna öllu eins og hún vildi gera og það sé oft á kostnað frumkvæðisvinnu.

„Ljóst að það verður að fjölga í lögreglunni en það verður ekki gert í einu vetfangi. Við sjáum að auk frumkvæðisvinnu náum við ekki að sinna fíkniefnamálunum eins og við vildum og ekki heldur umferðarmálum sem er mikilvægt að sé sinnt almennilega. Fíkniefnabrotin hafa því miður verið að færast aftar í forgangsröðina. Í því samhengi vil ég minna á að fyrir stuttu voru tvær ungar stúlkur hætt komnar vegna efna sem þær urðu sér úti um. Þetta er kannski vísbending um að það sé búið að draga of mikið úr rannsóknum á fíkniefnabrotum,“ segir Grímur.

„Við erum alltaf að reyna að skipuleggja okkur þannig að við sinnum sem flestu og það er svo sannarlega ekki þannig að við sinnum ekki fíkniefnamálum en engu að síður gætum við gert betur. Til að mynda ef við þyrftum ekki að margnýta starfsmenn og þess í stað gætu þeir einbeitt sér að ákveðnum málaflokkum,“ segir hann.

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kom út í október er sjónum beint að skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi.

Þar kemur fram að vitað er um a.m.k. tíu hópa sem eru virkir í skipulagðri brotastarfsemi og talið er að hópum sem lögregla kann ekki nægilega góð deili á hafi fjölgað nokkuð frá því síðasta skýrsla greiningardeildar var birt árið 2015. Lögregla býr yfir upplýsingum og vísbendingum um hópa og einstaklinga sem eru umsvifamiklir á sviði fíkniefnaviðskipta. Sumir þeirra hafa fullar hendur fjár og tengjast lögmætum fyrirtækjum sem skapar færi á peningaþvætti. Fíkniefnaneysla tengist í flestum tilfellum skipulagðri brotastarfsemi á einn eða annan veg. Framleiðsla, innflutningur, dreifing og sala fíkniefna er háð skipulagi og samstarfi margra þótt í undantekningartilfellum sé einn gerandi að verki.

Mikið magn af fíkniefnum berst til landsins.
Mikið magn af fíkniefnum berst til landsins. AFP

Mjög mikið af sterkum fíkniefnum í umferð

Grímur tekur undir þetta og segir að vísbendingar séu um að mjög mikið sé af sterkum fíkniefnum í umferð hér á landi og mun meira en áður. Sala á eiturlyfjum fer einkum fram á netinu, svo sem Facebook, en eitthvað er um sölu á skemmtistöðum, ekki síst til ferðamanna sem hingað koma í skemmtiferðir til Reykjavíkur.

„Töluvert er um kókaín en við höfum ekki orðið vör við að kókaín sé framleitt hér á landi líkt og við sjáum með kannabis en íslensk framleiðsla er alls ráðandi á þeim markaði og sá markaður er stór. Svo virðist sem kókaínið sé að koma frá Suður-Ameríku til Evrópu og með einhverjum leiðum hingað.

Við höfum líka verið með amfetamínmál þar sem fluttir eru inn amfetamín-basar en þá er efnið komið töluvert langt í framleiðsluferlinu,“ segir Grímur. Ekki hefur verið komið upp um stórar amfetamínverksmiðjur hér á landi undanfarin ár en lögreglan kom upp um starfsemi mjög stórrar og fullkominnar amfetamínverksmiðju í Móhellu í Hafnarfirði árið 2008.

„Það blasir við að það er að koma mikið magn af fíkniefnum hingað til lands. Sem dæmi má nefna að lögreglan á Suðurnesjum var með þrettán manns í gæsluvarðhaldi á sama tíma fyrir innflutning á fíkniefnum. Ef maður er raunsær þá er mjög ólíklegt að við séum að ná öllum burðardýrunum sem koma til Íslands. Ef það eru þrettán tekin um svipað leyti þá getur maður velt vöngum yfir því hversu mörg hafi komist í gegn,“ segir Grímur.

Ef hlut neytenda er sleppt þá fæst aðeins sýn á hluta markaðarins

Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna. Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis.

Spurður út í þetta segir Grímur að það sé mat hvers og eins hvað séu þungir dómar. Í dag séu fíkniefni ólögleg á Íslandi og það þýði að öll meðhöndlun slíkra efna er ólögleg.

„Ég vil horfa á markaðinn sem eina heild og ef hlut neytenda er sleppt þá missir lögreglan af hluta upplýsinga um markaðinn. Mín skoðun er sú að það sé dálítil útópía fólgin í því ef við eigum að vera bara að fylgjast með þeim sem fjármagna og flytja inn efnin. Því þessi efni eru sett á markað og fólk neytir þeirra.

Við getum séð fyrir okkur með aðra vöru ef við vissum ekkert um hvernig hennar væri neytt, bara hvernig hún er flutt inn, þá væri það takmarkað sem við vissum um hana. Ef við erum með ólöglega vöru og vitum ekki neitt um neyslu hennar þá er þetta spurning um hvort við vitum yfir höfuð nokkuð um innflutninginn. Við verðum að hafa upplýsingar um þennan ólöglega markað og á meðan löggjafarvaldið hefur ákveðið að hann sé allur ólöglegur þá miðar lögreglan við það í sinni vinnu. En staðreyndin er sú að fólk sem er tekið með örlítið af kannabisefnum fær ekki refsidóma á Íslandi,“ segir Grímur.

Veikt fólk á ekki heima í fangelsi heldur á fólk …
Veikt fólk á ekki heima í fangelsi heldur á fólk sem glímir við fíkn miklu frekar heima í heilbrigðiskerfinu. mbl.is/Hari

Hvað með ef það verður heimilt samkvæmt lögum að neyta kannabis?

„Ég verð að segja að mér finnst fólk oft slengja fram fullyrðingum í þessu sambandi án þess að þekkja vel það sem haldið er fram. Til að mynda er oft talað um portúgölsku leiðina og hollensku leiðina. Ég leyfi mér að spyrja þeirrar spurningar hvað þekkir fólk til þessara leiða?

Ef við ætlum að skoða lögleiðingu þá á að skoða allar hliðar málsins, finna kosti þess og galla og taka síðan ákvörðun um framhaldið. Ég segi þetta meðal annars vegna þess að sumir fullyrða að þetta myndi lækka löggæslukostað. Hvers vegna mun þetta lækka löggæslukostnað? Spyr ég. Þetta gæti að mínu mati frekar aukið löggæslukostnað í landinu.

Ég tek heilshugar undir með fólki sem segir að fíkn sé heilbrigðismál sem kerfin þurfa að tala saman um. Lögreglan hefur engan áhuga á að refsa þeim sem glíma við fíkn og koma fólki sem er veikt í fangelsi. Ekki hagur lögreglunnar og við myndum miklu frekar vilja að þetta fólk fengi lækningu líkt og veikt fólk á að fá í heilbrigðiskerfinu,“ segir Grímur.

Ólöglegir peningar enda í löglegri starfsemi hér

Grímur segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sjái að það eru miklir peningar sem koma frá ólöglegri starfsemi í umferð á Íslandi og hluti þeirra sem endar í löglegri starfsemi. Erfitt sé að koma upp um peningaþvætti og lögregla í öllum nágrannaríkjunum hafi sömu sögu að segja.

„Við erum í samvinnu við lögreglu víða í Evrópu og hjá félögum okkar þar heyrum við sömu sögu. Leiðirnar eru svo margar til að koma reiðufé í umferð þegar einbeittur vilji er fyrir hendi. Oft er talað um að veitingastaðir séu notaðir til þess að þvætta ólöglegt fé og það segir sig sjálft að til þess að rannsaka rekstur veitingastaða og verslana svo dæmi séu tekin þarf að skoða reksturinn ofan í kjölinn. Oft blandast saman lögleg starfsemi og ólögleg og mjög erfitt að finna út hvort rekstrarkostnaðurinn sé of lítill miðað við starfsemina,“ segir Grímur. Hann nefnir líka rafmyntina bitcoin en mjög erfitt er að festa hendur á notkun hennar.

Flest afbrot eru tengd netinu á einhvern hátt.
Flest afbrot eru tengd netinu á einhvern hátt. AFP

Í júlí handtók gríska lögreglan til að mynda Rússa sem var eftirlýstur í Bandaríkjunum grunaður um að hafa rekið umfangsmikið peningaþvætti með bitcoin. Hann er sakaður um að hafa komið illa fengnu fé, fjórum milljörðum bandaríkjadala, í umferð með rafrænum hætti, það er bitcoin.

Tölvuglæpir og nettengd afbrot af margvíslegu tagi eru í vaxandi mæli hluti af viðfangsefnum lögreglu.

„Í dag eru meira og minna öll brot fyrir utan ofbeldis- og kynferðisbrot tengd netinu og stundum tengjast þessi brot einnig netinu líkt og oft kemur í ljós við rannsókn á gögnum í tölvum manna. Annars staðar á Norðurlöndum, svo sem Danmörku, er lögreglan með tölvuglæpamiðstöðvar þar sem horft er til þess að brot sem tengjast netinu á einhvern hátt eða með rafrænum hætti séu rannsökuð, að minnsta kosti í upphafi, í slíkum deildum. Þetta er eitthvað sem við erum að reyna að gera í samvinnu við önnur lögregluumdæmi hér á landi,“ segir Grímur.

Eftir því sem skipulögð glæpastarfsemi eykst og verður alvarlegri hefur hún meiri áhrif á öryggisstigið í landinu. Álag á almenna löggæslu og rannsóknardeildir eykst auk þess sem slíkt kallar á stóraukna frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna.

Á árum áður ríkti einsleitni í fámennu samfélagi Íslendinga og einangrun landsins veitti visst skjól gagnvart alþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi en slíku er ekki til að dreifa í dag. Lögreglunni hefur ekki verið gert kleift að fylgja eftir þróun og breytingum samfélagsins. Frumkvæðislöggæsla krefst mannafla og fjármuna til lengri tíma. Í stað þess að lögreglumönnum væri fjölgað til þess að efla frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna fækkaði lögreglumönnum stórlega frá árinu 2007 og draga þurfti úr starfsemi lögreglu á öllum sviðum. Þessi skortur á frumkvæðislöggæslu gerir það að verkum að lögreglan fylgir ekki nægilega vel samfélagsþróun og býr þannig ekki yfir nauðsynlegri getu til að takast á við breytingar sem fylgja t.a.m. alþjóðavæðingu og skipulagðri glæpastarfsemi þvert yfir landamæri, segir meðal annars í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kom út í haust.

mbl.is/Kristinn

Samfélög inni í samfélögum

Grímur staðfestir þetta og segir að engin spurning sé um að fleiri brotahópar séu starfandi hér en áður auk þess sem meiri harka er í þessum heimi en áður.

Eitt af því sem fylgir skipulagðri brotastarfsemi er að það verður til samfélag í samfélaginu.

„Stundum er það þannig að þegar einhver brýtur af sér í þessu samfélagi þá er viðkomandi refsað án þess að við, sem eigum að koma að því, gerum það. Slíkt ofbeldi er ekki kært til okkar sem er gríðarlega alvarlegt því þegar einhver samfélög inni í samfélögum eru farin að ráða lögum og lofum þá er eitthvað mikið að.

Lögreglan fær stundum ávæning af slíkum málum en því er þannig farið að þessi mál rata mjög sjaldan á borð lögreglu. Menn taka á því sem þeir líta á sem brot og refsa viðkomandi. Þeir stjórna með óttanum og þeir sem er refsað óttast frekari refsingar og það hvarflar ekki að þeim að láta lögreglu vita,“ segir Grímur.

Fréttir berast stundum af hrottalegum ofbeldisverkum þegar verið er að innheimta skuldir hjá fólki. Oftar en ekki tengjast þessi mál fíkniefnum líkt og flest ofbeldisbrot gera í dag.

Grímur bendir á að eitt sé að vita ekki hvað maður er að gera vegna annarlegs ástands en annað er að hafa samvisku til þess að gera það. „Til að mynda þegar svokallaðir handrukkarar ganga í skrokk á fólki sem skuldar peninga. Þetta er eitthvað sem ekki er til í venjulegu fólki en þegar búið er að slæva það mannlega í fólki þá verða einhverjir færir um slíkt,“ segir hann.

Allir lögreglumenn komnir í skotheld vesti

Ágætt dæmi um breytinguna sem orðið hefur á starfi lögreglunnar undanfarna áratugi er klæðaburður lögreglumanna.

„Þegar ég var að byrja í lögreglunni voru lögreglumenn klæddir jakkafötum. Þau eru í dag kölluð hátíðarbúningur. Allir lögreglumenn sem starfa á vettvangi eru klæddir vestum (skotheldum) og við höfum þurft að vopna menn sem er eitthvað sem við þurftum aldrei hér áður fyrr. Ég tek samt fram að sérsveitin er alltaf fyrsti kostur þegar fara þarf gegn mönnum sem grunur leikur á að séu vopnaðir. Vopn eru einnig orðin algengari en áður, sérstaklega hnífar og þess vegna þurfa lögreglumenn að fara mjög varlega. Á sama tíma hefur neysla vímuefna aukist og hömluleysi fylgir því enda lítil skynsemi í höfði manna sem neyta harðra fíkniefna,“ segir Grímur.

Í ár hafa verið framin fjögur morð á Íslandi en að sögn Gríms er það langt yfir meðaltali undanfarinna ára. Spurður um hvort starf lögreglunnar sé farið að líkjast því sem sést í norrænum spennuþáttum eða bókmenntum segir Grímur að svo sé ekki.

„Harkan er að aukast í samskiptum fólks og hömluleysi en samanburður við skáldsögur og sjónvarpsþætti er ekki raunhæfur enda þar verið að búa til eitthvað sem selur. Löggæsla og vinna lögreglu er yfirleitt ekki spennandi fyrir almenning að fylgjast með og eins er krafan um það hvernig gagna er aflað og vinnubrögð ólík því sem við sjáum í  sjónvarpi og bókum,“ segir Grímur. 

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Grímur …
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt erfiðasta mál ársins

Um miðjan janúar hvarf ung stúlka, Birna Brjánsdóttir, sporlaust í miðborginni og fannst hún látin átta dögum síðar, 22. janúar. Rannsókn málsins var undir stjórn Gríms og starfssystkina í miðlægu deildinni og vakti málið gríðarlega athygli bæði innanlands sem utan.

Mikið álag var á starfsmenn lögreglunnar á meðan rannsókninni stóð og voru nánast öll önnur verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lögð til hliðar á meðan.

Björgunarsveitarfólk alls staðar að á landinu tók þátt í leitinni …
Björgunarsveitarfólk alls staðar að á landinu tók þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Eggert

Að sögn Gríms var rannsóknin forgangsverkefni hjá öllum í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að morðið á Birnu hafi verið eitt erfiðasta mál sem kom til kasta lögreglunnar á árinu sem er að líða.

 „Þetta var mjög sérstakt mál og ekki bara á einn veg heldur margan hátt. Bæði að það byrjar sem mannshvarf, leitað var að ungri konu sem skilar sér ekki heim og síðan eru þrír í áhöfn grænlensks togara handteknir um borð þegar skipið er á leið til Íslands.“

Hvarfið og morðið á Birnu greip þjóðina og fólk fylgdist grannt með fjölmiðlum og störfum lögreglu. Grímur segir að fólk hafi samsamað sig við Birnu og margir, ekki síst ungar konur, hugsuðu um eigið öryggi og vildu að það væri tryggt.

„Að sjálfsögðu eiga ungar konur, líkt og aðrir, að vera öruggar þegar þær eru einar á ferð. Því er aldrei þannig farið að þegar einhver er beittur ofbeldi að það sé viðkomandi að kenna og það á að vera algjörlega á hreinu að fólk á að geta verið eitt á ferð og verið öruggt, jafnvel þótt einhvers áfengis sé  neytt. Við vitum alveg að mikið er um að vera í skemmtanalífinu í miðborginni um helgar og þess vegna held ég að margir foreldrar hafi haft áhyggjur af sínum ungmennum í kjölfar hvarfs Birnu. En ég held að í framhaldinu hafi þessi umræða þróast á réttan hátt og ég hef það ekki á tilfinningunni að fólk upplifi sig óöruggara eftir þetta. Við bættum við öryggismyndavélum í miðborginni án þess þó að auka endilega viðveru lögreglu þar. Við erum á öllum tímum sólarhringsins að reyna að tryggja öruggi borgaranna eins og hægt er og hvar sem er í umdæminu,“ segir Grímur.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Thomas Frederik Møller Olsen var 29. september dæmdur í 19 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana 14. janúar.  Thomas var einnig dæmdur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en í káetu hans um borð í togaranum Polar Nanoq, þar sem hann var skipverji, fundust um 20 kíló af hassi. Lögmaður hans áfrýjaði dómnum og verður málið tekið fyrir í Landsrétti þegar hann tekur til starfa á nýju ári.

Grímur segir að það sé hans skoðun að sú mikla og góða vinna sem lögð var í á meðan rannsókninni stóð hafi skilað árangri og hann telji að tekist hafi að upplýsa það þrátt fyrir að Thomas hafi neitað sök fyrir héraði.

Vændi tengist oft skipulagðri glæpastarfsemi.
Vændi tengist oft skipulagðri glæpastarfsemi. mbl.is/Árni Torfason

Sprenging í vændi á undanförnum misserum

Sífellt oftar berast fréttir af mansali hér á landi, bæði vinnumansali sem og kynlífsmansali. Að sögn Gríms hefur orðið sprenging í vændi hér á landi á síðustu misserum og í á annað ár hefur deildin haft sérstakan mann sem alfarið sinnir mansals- og vændismálum.

„Einn maður er að sjálfsögðu ekki nóg en hann hefur samt náð að safna saman miklum upplýsingum og við komist í samband við konur sem stunda hér vændi. Ekki er ólöglegt að selja vændi á Íslandi en það er ólöglegt að kaupa slíka þjónustu.

Einn tilgangurinn með því að ræða við konur sem talið er að stundi vændi er að fá upplýsingar um hvort þær séu beittar þvingun. Því það er  grundvallaratriði að koma í veg fyrir mansal sem er hræðilegur hlutur. Það er ekki alltaf auðvelt að fá slíkar upplýsingar því ýmsar þeirra þekkja ekki annað en þvingun af einhverju tagi allt sitt líf. Þær koma jafnvel frá svæðum þar sem lögregla nýtur lítils sem einskins trausts. Því er mjög erfitt að fá fólk sem brotið er gegn til þess að vinna með okkur svo hægt sé að uppræta brotið og handtaka þann sem brýtur á þeim. Þar sem vændissala er ekki ólögleg missum við oft fólk úr landi þegar mál eru sprengd upp eins og við köllum það. Það er þolendur fara úr landi á meðan rannsókn stendur enn yfir,“ segir Grímur.

Framboðið hættulega mikið

Grímur segir framboðið á vændi á Íslandi hættulega mikið og því velti lögreglan oft fyrir sér eftirspurninni. „Ef hún væri lítil þá væri framboðið ekki svona mikið. Þetta virðist vera falinn vandi sem kraumar undir yfirborðinu. Málin eru tímafrek og lítill mannskapur veldur því að við verðum að velja og hafna og taka aðeins þau mál þar sem rökstuddur grunur er um að vændi sé keypt. Aftur á móti ef grunur er um mansal þá eru slík mál sett í algjöran forgang,“ segir Grímur.

Vændi tengist oft skipulagðri glæpastarfsemi og bendir Grímur á að menn eru í skipulagðri brotastarfsemi til þess að hagnast og leiti allra leiða til þess að hagnast sem mest. Skipti þar engu hvort heldur sem starfsemin er lauslega skipulögð eða mikið. Hagnaður ræður för.

Svört atvinnustarfsemi skekkir samkeppni um verkefni meðal annars í byggingariðnaði. …
Svört atvinnustarfsemi skekkir samkeppni um verkefni meðal annars í byggingariðnaði. Það getur reynst erfitt að keppa við þá sem ekki greiða sitt til þjóðfélagsins í formi skatta og lögboðinna gjalda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keðjuábyrgð getur komið sér vel

Að hans sögn hefur lögreglan rökstuddan grun um að hingað komi hópar fólks frá löndum sem Ísland skilgreinir sem örugg ríki og sæki um hæli hér og fái meðferð í samræmi við það af hálfu ríkisins um leið og þeir stundi afbrot hér á landi. Slík mál hafa verið á borði lögreglunnar og segir Grímur dæmi um að hælisleitandi sem fær synjun um hæli og er fylgt úr landi af lögreglu í kjölfarið. Skömmu síðar er sá hinn sami kominn hingað aftur og tekið við fyrri iðju. Í einhverjum tilvikum er fólk að ráða sig í svarta vinnu og á meðan fyrirtæki eru reiðubúin til þess að taka þátt í slíkri ólöglegri starfsemi þá heldur hringekjan áfram.

„Við sjáum þetta meðal annars í byggingariðnaði og ferðaþjónustu og þetta skekkir verulega samkeppni á þessum markaði. Sá sem er með ólöglegt vinnuafl í vinnu er með miklu lægri rekstrarkostnað heldur en sá sem er með allt sitt á hreinu og greiðir sitt samviskusamlega til samfélagsins. Það er ekki bara mikilvægt fyrir heilbrigða samkeppni á vinnumarkaði að svona líðist ekki heldur einnig fyrir starfsfólkið sem er algjörlega réttlaust ef um svarta atvinnustarfsemi er að ræða,“ segir Grímur.

Spurður út í hvað sé til ráða segir Grímur að keðjuábyrgð sé eitthvað sem honum finnst freistandi að fara út í. Hún felur í sér að aðalverktaki ber ábyrgð á að undirverktakar hans stundi ekki félagsleg undirboð.

„Að menn séu ekki að semja blindandi heldur sé það þannig að þegar þú semur við einhvern um verk þá sértu viss um að vinnuaflið sé löglegt. Menn í skipulagðri glæpastarfsemi hugsa eins og kaupsýslumenn. Þeir hugsa um viðskipti og hvernig þeir geti hagnast á þeim. Hinn heiðarlegi kaupsýslumaður hagnast á heiðarlegan hátt en þessir menn gera það ekki,“ segir Grímur.

Grímur kom fyrst til starfa í lögreglunni í Reykjavík árið 1987. Hann var meðal annars í efnahagsbrotadeildinni en hætti í lögreglunni í eitt ár og starfaði á endurskoðunarskrifstofu. Grímur er menntaður viðskiptafræðingur og með meistarapróf í endurskoðun og reikningsskilum.

Færir sig fljótlega um set 

Haustið 2008 hóf hann aftur störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og þegar embætti sérstaks saksóknara var sett á laggirnar var Grímur einn þeirra sem var fenginn til starfa hjá embættinu allt frá fyrsta degi, 1. febrúar 2009, og starfaði þar þangað til embættið var lagt niður, 31. desember 2015. Þá hóf héraðssaksóknari störf og var Grímur yfirlögregluþjónn hjá embættinu þangað til hann kom aftur til starfa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 1. nóvember 2016 og þá sem yfirlögregluþjónn og yfirmaður þess hlutar hinnar miðlægu rannsóknardeildar sem sinn rannsóknum á alvarlegri og skipulagðri brotastarfsemi. Hann tók síðan við stjórnun hinnar miðlægu rannsóknardeildar 1. nóvember sl.

Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Europol

Miklar breytingar verða á högum Gríms á næstunni en 1. febrúar fer hann til starfa hjá Europol og tekur við sem tengslafulltrúi Íslands þar 1. apríl þegar Karl Steinar Valsson snýr aftur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en hann hefur verið hjá Europol í á fjórða ár.

Europol, sem er ein af stofnunum Evrópusambandsins, er með höfuðstöðvar í Haag í Hollandi og hefur Ísland verið með samning um að eiga þar einn tengslafulltrúa frá árinu 2007.

Grímur segir samstarfið mikilvægt fyrir lögregluna á Íslandi og öflugt enda flestar þjóðir Evrópu með tengslafulltrúa hjá Europol. Með auknu samstarfi þvert á landamæri er Europol oft tengiliður í slíkum verkefnum lögreglu auk þess sem stofnunin rekur gagnagrunna á ýmsum sviðum sem nýtist lögreglu um allan heim.

Europol er með öflugar greiningardeildir og kemur meðal annars þannig inn í stærri verkefni þegar fleiri en eitt land kemur að. Jafnframt greiðir Europol kostnað sem annars myndi lenda á viðkomandi landi. Þetta hefur komið íslensku lögreglunni vel og aukið erlenda samvinnu.

Eitt þeirra mála sem íslenska lögreglan hefur unnið í samstarfi við lögreglu í öðrum ríkjum er stórfellt fíkniefnabrot og peningaþvætti sem lögreglan upplýsti um á blaðamannafundi fyrr í vikunni. Talið er að götuverðmæti fíkniefna sem hald var lagt á sé um 400 milljónir króna en eignirnar hátt í 200 milljónir.

Grímur segir að lögreglurannsókn í tengslum við málið hafi hafist í Póllandi árið 2014. Haustið 2016 kom íslenska lögreglan að málinu, fyrst með fundi ríkislögreglustjóra hjá Europol. Ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, átti frumkvæði að fundinum hjá Europol 2016 en þá eru Pólverjarnir sem tengjast málinu sestir að á Íslandi. Fylgst hefur verið með þeim síðan þá.

Eftir að samstarfið hófst voru haldnir reglulega fundir um málið á vegum Europol en stofnunin fjármagnar flug og annan kostnað sem tengist slíkum fundum. Grímur segir að slíkir fundir geti skipt miklu máli í stað þess að öll samskipti milli lögregluembætta fari fram í gegnum síma. Eurojust, sem er sambærileg stofnun og Europol en þar starfa saksóknarar, kom einnig að samstarfinu. Saksóknarar Eurojust veittu lögreglunni til að mynda aðstoð varðandi alþjóðlegan réttarbeiðnir og fleira.

Líkt og fram hefur komið leikur grunur á að kyrrsettu eignirnar og haldlagt lausafé sé allt tilkomið vegna gróða af ólöglegri starfsemi. Um er að ræða íslensk fyrirtæki sem mennirnir áttu hlut í. Jafnframt var lagt hald á lausafé og bíla og eins voru fasteignir kyrrsettar.

„Alþjóðleg brotastarfsemi virðir engin landamæri og þeir sem stýra slíkri starfsemi vita mjög vel að um leið og farið er yfir landamæri þá flækir það málið. Því skiptir það mjög miklu máli fyrir lögregluna að vinna saman, bæði óformlega sem og formlega. Upplýsingar frá okkar litla landi hafa orðið til þess að mál hafa upplýst annars staðar. Til að mynda sala á fölsuðum varningi,“ segir Grímur.

Grímur segir að nýja starfið, sem er til þriggja ára með möguleika á framlengingu í eitt ár, leggist mjög vel í hann. „Ég og konan mín förum bara tvö út þar sem börnin eru uppkomin. Okkur líst vel á að flytja til Hollands og starfið er mjög áhugavert. Staðan er rekin af fimm embættum, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra, héraðssaksóknara, lögreglunni á Suðurnesjum og tollstjóra.  

Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol og Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn …
Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol og Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn tóku þátt í blaðamannafundi á mánudag þar sem fjallað var um stórtæka glæpastarfsemi sem teygði anga sína víða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímur er spurður út í hverju hann myndi vilja ná fram varðandi löggæslumál á Íslandi.

„Ef ég væri einvaldur í einn dag og ætti bara að horfa á löggæsluna þá myndi ég einfaldlega vilja koma henni á dagskrá. Þar á ég við að fólk hefði skoðun á því hvernig hún eigi að vera. Því um leið og fólk hefur skoðun á hlutunum, til að mynda á öryggisþörfinni, þá er fólk reiðubúið til þess að setja peninga í löggæsluna.  

Það er eitthvað sem við verðum að gera sem borgarsamfélag. Við erum ungt borgarsamfélag – eiginlega á unglingsstigi. Við sjáum það á byggingum í borginni. Hér er verið að endurbyggja sem er tiltölulega nýtt fyrir okkur. Sum hús borgarinnar eru komin að endurnýjun og þetta höfum við ekki upplifað áður í Reykjavík. 

Samfara þessu er borgarsamfélagið að festa sig í sessi með öllu sem því fylgir og ef við viljum að lögregla sinni eftirliti og gæti að öryggi íbúanna þá þarf að tryggja að hún hafi það fjármagn sem til þarf. Við verðum sem samfélag að gera okkur grein fyrir því að til þess þarf peninga.

Ég hef stundum sagt að þegar ég ræði við fólk í heilbrigðiskerfinu að ég öfunda það því það er allavega á dagskrá að setja peninga inn í heilbrigðiskerfið líkt og ekki er vanþörf á. Jafnvel er rætt um það af fullri alvöru að setja ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu inn í heilbrigðiskerfið. Ég myndi líka vilja sjá slíka umræðu um löggæsluna í landinu. Því það er svo margt sem við verðum að vera á varðbergi með. Til að mynda varðandi hryðjuverk og að þau verði ekki framin hér á landi.

Til þess að það sé hægt þá verðum við að gæta að og fylgjast grannt með því sem er í gangi í kringum okkur og varna því að hryðjuverkamenn láti til skarar skríða hér. En það gerum við ekki án rannsókna og eftirlits.

Þannig að þetta er mín draumsýn. Að fólk hafi skoðun á refsivörslukerfinu allt frá upphafi til enda. Kerfi sem er gríðarlega mikilvægt en um leið hulið og því miður virðist oft lítill áhugi á því. Þegar okkur er svo þröngt sniðinn stakkur og raun ber vitni getur verið erfitt að bregðast við þegar mörg mál koma til okkar kasta. Með þessu er ég alls ekki að segja að lögreglan sinni ekki hlutverki sínu því það gerir hún svo sannarlega og öryggi borgaranna tryggt eftir fremsta megni. En það kostar blóð, svita og tár og því miður erum við alltaf að láta fólk fara á milli verkefna.

Vissulega hefur verið bætt frá því þegar verst lét í kjölfar hrunsins en það má segja að ef við viljum takast á við öll þessi verkefni þá verður meira að koma til. Ef viljinn er fyrir hendi þá verður að bæta í og setja aukinn kraft og fjármagn inn í löggæslu landsins,“ segir Grímur að lokum.

Grímur segir hann vildi að fólk hefði skoðun á því …
Grímur segir hann vildi að fólk hefði skoðun á því hvernig standa eigi að löggæslu hér á landi. Því ef fólk hafi skoðun á hlutunum þá er fólk reiðubúið til þess að setja peninga í löggæsluna. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert