Úrskurðanefnd um upplýsingamál hefur hafnað beiðni einstaklings sem vildi fá aðgang að gögnum sakamáls hjá embætti héraðssaksóknara sem tengdist morði á Birnu Brjánsdóttur, en Thomas Møller Olsen var dæmdur í 19 ára fangelsi í héraðsdómi vegna þess.
Embætti héraðssaksóknara hafnaði beiðni mannsins, sem ekki er nafngreindur í úrskurðinum, í fyrra og kærði viðkomandi synjunina í nóvember. Var óskað eftir aðgangi að tilteknum gögnum og upplýsingum varðandi rannsóknina.
Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar kemur fram að óþarft hafi þótt að veita embætti héraðssaksóknara kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit sitt á málinu eða afrit af gögnunum sem kæran lýtur að. Er ástæðan sú að í upplýsingalögum er sérstaklega tekið til þess að lögin gildi ekki um rannsókn sakamála eða saksóknar. Í athugasemdum við lagafrumvarpið sem síðar varð að upplýsingalögunum kemur einnig fram að rannsókn sakamála og saksókn séu undanskilin gildissviði upplýsingalaga og að um aðgang að slíkum gögnum fari eftir sérákvæðum laga um meðferð sakamála.
Vegna þessa er beiðni kærandans hafnað þar sem hún hafi beinst skýrlega að gögnum og upplýsingum um rannsókn sakamáls og saksókn.