Gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum í tengslum við skipulagða brotastarfsemi rann út á föstudag og var ekki farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir öðrum þeirra. Hinn var aftur á móti úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. febrúar á grundvelli almannahagsmuna.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að það þýði að hann er ekki lengur í einangrun. Tvímenningarnir tengjast pólsku fyrirtæki sem rekur verslanir hér á landi, Euro Market.
Í fyrstu voru þrír Pólverjar úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 22. desember í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu smygli og framleiðslu á fíkniefnum, fjársvik og peningaþvætti hér á landi. Mennirnir eru grunaðir um að hafa komið ólöglega fengnu fé inn í rekstur fyrirtækja á Íslandi. Tveir þeirra voru úrskurðaðir í þriggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald 22. desember eða til 12. janúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur segir að rannsókn málsins miði vel en það sé flókið enda nær það til fleiri landa en Íslands.
Mennirnir þrír voru handteknir í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra klukkan sex að morgni 12. desember en alls voru 20 manns handteknir þann dag í samræmdum aðgerðum lögregluyfirvalda á Íslandi, í Póllandi og Hollandi. Íslenska lögreglan lagði hald á fimm bíla, innistæður í bönkum og eignarhluti í fyrirtækjum ásamt því að kyrrsetja fasteignir í eigu hinna handteknu.