Karlmaður, sem úrskurðaður hafði verið í gæsluvarðhald til til 9. febrúar á grundvelli almannahagsmuna í tengslum við skipulagða brotastarfsemi, er laus úr varðhaldi. Landsréttur sneri úrskurði héraðsdóms en maðurinn var þess í stað úrskurðaður í farbann.
RÚV greindi frá málinu. Héraðsdómur hafði úrskurðað manninn í fjögurra vikna gæsluvarðhald en Landsréttur komst að því að ekki væru forsendur fyrir því að halda manninum í varðhaldi.
Þrír menn voru handteknir í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra klukkan sex að morgni 12. desember en alls voru 20 manns handteknir þann dag í samræmdum aðgerðum lögregluyfirvalda á Íslandi, í Póllandi og Hollandi.
Í fyrstu voru þrír Pólverjar úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu smygli og framleiðslu á fíkniefnum, fjársvik og peningaþvætti hér á landi. Einum var sleppt 20. desember og gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna rann út á föstudag og var ekki farið fram á áframhaldandi varðhald yfir honum.