Akkur í „lifandi landslagi“ verndarsvæða

Vega-eyjaklasinn á sér merka sögu verkmenningar. Karlmenn sóttu þar sjóinn …
Vega-eyjaklasinn á sér merka sögu verkmenningar. Karlmenn sóttu þar sjóinn en konurnar sáu um búið á meðan og öfluðu tekna með ýmsum hætti. Þar er um þúsund ára hefð fyrir sérstökum aðferðum við dúntekju. Ljósmynd/Rita Johansen

Ná­lægð við íbúa­byggð og at­vinnu­starf­semi get­ur verið lyk­ilþátt­ur í vernd­un nátt­úru- og menn­ing­ar­svæða. Gest­ir ráðstefn­unn­ar Vernd­ar­svæði og þróun byggðar, sem fram fór á föstu­dag, fengu að heyra dæmi um þetta frá Englandi, Skotlandi og Nor­egi. Byggð er inn­an allra þriggja svæðanna sem voru kynnt og er land þeirra að stærst­um hluta í einka­eigu. Fyr­ir­les­ar­arn­ir voru sam­mála um að til að svæði sem þessi nái að þríf­ast og blómstra þurfi að hafa hags­muni margra að leiðarljósi, ekki síst heima­manna, hvort sem þeir eru bænd­ur, sjó­menn, stundi versl­un, þjón­ustu eða iðnað. Með slíkri sam­vinnu sé hægt að vernda nátt­úr­una og menn­ingu svæðanna en ekki síður efla lífsviður­væri fólks.

Gluggi út í heim

„Til­gang­ur­inn með þess­ari ráðstefnu er að opna glugga út í heim, til að hleypa inn fersk­um vind­um og nýj­um hug­mynd­um,“ sagði Sig­urður Gísli Pálma­son við upp­haf ráðstefn­unn­ar. Sig­urður Gísli, sem er aðal­eig­andi IKEA á Íslandi, er stofn­andi fé­lags­sam­tak­anna Hríf­andi sem stóðu að ráðstefn­unni. „Við ætl­um að fræðast um það hvernig aðrar þjóðir fara að við það að hag­nýta nátt­úru­gæði og menn­ing­ar­arf á vernd­ar­svæðum. Við ætl­um að fræðast um hvernig farið er að því að tryggja vernd­un um­hverf­is­ins sam­hliða þróun byggðar og at­vinnu­lífs. Við Íslend­ing­ar eru skammt á veg komn­ir í þess­um efn­um en miðað við reynslu annarra þjóða væri það til heilla að stíga skrefið til fulls.“

Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífanda, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, …
Sig­urður Gísli Pálma­son, stofn­andi Hríf­anda, og Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra, á fremsta bekk í Ver­öld, húsi Vig­dís­ar, þar sem ráðstefn­an fór fram fyr­ir full­um sal. mbl.is/​RAX

Cairn­g­orms-þjóðgarður­inn í Skotlandi

„Við telj­um að menn og nátt­úra séu sam­tvinnuð,“ sagði Peter Cra­ne, for­stöðumaður gesta­mót­töku Cairn­g­orms-þjóðgarðsins í Skotlandi. Sérstaða garðsins fellst m.a. í því að þrír fjórðu hlut­ar lands­ins eru í einka­eigu og inn­an hans búa og starfa um 18.500 manns. Garður­inn var stofnaður, m.a. með aukna ferðamennsku í huga, í mik­illi sam­vinnu við heima­menn árið 2003 og fagn­ar hann því fimmtán ára af­mæli í ár. Hann er stærsti þjóðgarður Bret­lands og frá upp­hafi var vilji til þess að inn­an hans yrði byggð.

Bú­seta hófst á lands­svæðinu þar sem garðinn er nú að finna fyr­ir um 9.000 árum. Sag­an er því rík af hefðum er tengj­ast m.a. tónlist og íþrótt­um. Þar er að finna nokk­ur af stærstu fjöll­um Bret­lands­eyja og minn­ir há­lendið á lands­lag heim­skauta­svæðanna. Þar finnst einnig forn skóg­ur og fjöl­skrúðugt dýra­líf, m.a. teg­und­ir sem eru í út­rým­ing­ar­hættu. Þjóðgarður­inn var því stofnaður til að vernda jafnt menn­ingu sem nátt­úru.

Lands­svæðið til­heyr­ir fimm sveit­ar­fé­lög­um og sam­an­stend­ur að stór­um hluta af 25 stór­um land­ar­eign­um í einka­eigu. Það teng­ist auk þess þrem­ur at­vinnusvæðum og ólík­ar op­in­ber­ar stofn­an­ir hafa skyld­um þar að gegna. „Fyr­ir fimmtán árum sam­einuðum við þetta allt und­ir einn hatt,“ sagði Cra­ne. Og það sem sam­einaði svæðið var nátt­úr­an. Við und­ir­bún­ing stofn­un­ar garðsins var þess gætt að hlusta á fólk. Það er enn leiðar­stefið í dag. Bæði við stofn­un og reglu­lega eft­ir hana er hóp­ur hags­munaðila kallaður sam­an til skrafs og ráðagerða. Þessi hóp­ur sam­an­stend­ur m.a.  af heima­mönn­um, land­eig­end­um, nátt­úru­vernd­ar- og úti­vistar­fólki. Að sögn Cra­nes er þessi sam­vinna nauðsyn­leg og að nátt­úr­an hafi frá upp­hafi verið sam­eig­in­leg­ur snerti­flöt­ur í því sam­tali.

Sjálf­bært og blómstrandi sam­fé­lag

Cra­ne seg­ir þrjú lyk­il­atriði í skipu­lagi og starf­semi garðsins sem geti ekki án hvers ann­ars verið: Vernd­un, upp­lif­un gesta og byggðaþróun. „Við vilj­um að sam­fé­lagið sé sjálf­bært og blómstri,“ sagði hann. Þá sagði hann mikla sam­vinnu vera við fyr­ir­tæki sem nýta sér með ein­hverj­um hætti aðdrátt­ar­afl svæðis­ins. Gest­um garðsins fer sí­fellt fjölg­andi og hafa þeir mik­il svæðis­bund­in efna­hags­leg áhrif.

Cairngorms-þjóðgarðurinn í Skotlandi er sá stærsti á Bretlandseyjum. Menning sem …
Cairn­g­orms-þjóðgarður­inn í Skotlandi er sá stærsti á Bret­lands­eyj­um. Menn­ing sem og nátt­úra svæðis­ins nýt­ur vernd­ar.

Til Cairn­g­orms-þjóðgarðsins sæk­ir fólk í að skoða sig um og slaka á, sam­kvæmt könn­un­um sem gerðar hafa verið. Þeir vilja gæðaupp­lif­un, sjá eitt­hvað sem er upp­runa­legt og sér­stætt hvort sem er í um­hverf­inu sjálfu eða í afurðum sem þar fást.

Yf­ir­völd þjóðgarðsins eiga ekk­ert land og eng­ar bygg­ing­ar inn­an hans en þar hafa þau þó skipu­lags­vald. Öll upp­bygg­ing inn­an garðsins, hvort sem það er lagn­ing göngu­stíga, merk­ing­ar eða gesta­stof­ur, eru gerðar í sam­vinnu við einkaaðila, fé­laga­sam­tök og sveit­ar­fé­lög. Sagði Cra­ne mik­il­vægt allt frá upp­hafi að skil­greina sín sér­ein­kenni og byggja á þeim. Þá sé mik­il­vægt að hvetja til samtarfs en reyna ekki að stjórna í hverju það sé fólgið. Garður­inn sé sam­eign allra. Sam­fé­lög í ná­grenni hans hafa verið hvött til sam­vinnu og í dag eru yfir 300 ferðaþjón­ustuaðilar með starf­semi inn­an hans sam­kvæmt sam­komu­lagi um að haga starf­semi sinni með ábyrg­um hætti.

 Vega-eyja­klas­inn í Nor­egi

Viðvar­andi fólks­fækk­un á Vega-eyja­klas­an­um í Norður-Nor­egi varð til þess að íbú­arn­ir áttu frum­kvæði að því að þar yrði sett á fót vernd­ar­svæði. Árið 2001 hófst vinna við að til­efna eyj­urn­ar á heims­minja­skrá UNESCO og árið 2004 var það orðið að veru­leika. Allt land inn­an hins verndaða svæðis er í einka­eigu og á eyj­un­um búa rúm­lega 1.200 manns. Talið er að þangað hafi menn fyrst komið fyr­ir um 11 þúsund árum en í um 500 ár hef­ur þar verið föst bú­seta. Þarna við heim­skauts­baug hef­ur þrif­ist bænda- og fiski­manna­sam­fé­lag síðan. Alda­göm­ul verk­menn­ing eyja­skeggja í tengsl­um við æðar­varp, þar sem lít­il hús eru byggð  fyr­ir hina villtu fugla, var lyk­ilþátt­ur í því að fá stimp­il heims­minja­skrár­inn­ar.

Rita Johan­sen, sam­ræm­ing­ar­stjóri eyja­klas­ans við heims­minja­skrána, sagði að unga fólk­inu á eyj­un­um hafi sí­fellt fækkað og litið hafi verið á vernd­un svæðis­ins sem tæki­færi til at­vinnu­sköp­un­ar til að sporna gegn fólks­flótt­an­um.

„Við erum svo lítið sam­fé­lag að við verðum stöðugt að leita sam­starfs við aðra,“ sagði Rita. Unnið er að verk­efn­um í sam­starfi við land­eig­end­ur, há­skóla, sveit­ar­fé­lög í næsta ná­grenni sem og sam­tök bænda og sjó­manna og ýmis fé­laga­sam­tök. Mörkuð hef­ur verið stefna um sjálf­bæra ferðamennsku í tengsl­um við vernd­un menn­ing­ar­minja og nátt­úru. Á eyj­un­um er nú að finna hjóla­leigu og önn­ur smá­fyr­ir­tæki sem bjóða t.d. upp á báts- og kaj­ak-ferðir um svæðið sem sam­an­stend­ur af rúm­lega 6.000 eyj­um og skerj­um.

Já­kvæð efna­hags­leg áhrif

Eng­in stór skemmti­ferðaskip koma til eyj­anna en rann­sókn­ar­skip­um er tekið fagn­andi og koma nokk­ur slík þar við á hverju ári.

Á svæðinu er að finna nokkra smáa byggðar­kjarna. Þar er unnið að verk­efn­um sem byggja á hinni fornu menn­ing­ar­arf­leifð m.a. með það í huga að skapa áhuga­verð störf fyr­ir heima­menn.

Á Vega-eyjum hefur byggst upp ferðamennska í tengslum við það …
Á Vega-eyj­um hef­ur byggst upp ferðamennska í tengsl­um við það að svæðið er nú á heims­minja­skrá UNESCO.

Rita sagði efna­hags­leg áhrif vernd­un­ar­inn­ar hafa verið já­kvæð og að gest­um fari fjölg­andi.  Einnig hafi ásýnd byggðar­inn­ar á eyj­un­um breyst mikið frá því að þær komust á heims­minja­skrá, m.a hafa göm­ul hús verið gerð upp og eru nú til mik­ill­ar prýði.

Nú er unnið að því að byggja gesta­stofu og voru fjöl­marg­ir hags­munaaðilar kallaðir til við út­færslu fyr­ir­hugaðrar starf­semi henn­ar. „Við verðum að vinna í nánu sam­starfi við heima­menn og við verðum að vinna stöðugt að því að fá ungt fólk til að búa á svæðinu,“ sagði Rita.

Bow­lands-skóg­ur á Englandi

Það vex ekki mik­ill skóg­ur inn­an Bow­lands-skóg­ar, vernd­ar­svæðis í norðvest­ur­hluta Eng­lands. Orðið „skóg­ur“ (for­est) vís­ar nefni­lega ekki til trjáa held­ur til veiðilendna kónga­fólks á miðöld­um. Svæðið er verndað vegna stór­kost­legr­ar nátt­úru­feg­urðar líkt og 46 aðrir staðir á Bret­lands­eyj­um. Það nýt­ur ekki sama ut­an­um­halds og stuðnings og þjóðgarður en ákveðin skil­yrði eru þau sömu, s.s. vernd­un nátt­úru og menn­ing­ar­minja. Svæðið var af­markað á sjö­unda ára­tugn­um en það var ekki fyrr en 1996 að form­legt starf í tengsl­um við vernd­ina hófst. Um 17 þúsund manns búa inn­an vernd­ar­svæðis­ins og er landið að mestu leyti í einka­eigu. Vernd­un svæðis­ins og upp­bygg­ing sem henni fylg­ir er því unn­in í sam­starfi við land­eig­end­ur, op­in­ber­ar stofn­an­ir, sveit­ar­stjórn­ir og ýmis fé­laga­sam­tök.

Bow­lands-skóg­ur var lengst af fyrst og fremst land­búnaðarsvæði og vin­sæll til skot­veiða. Að sögn Elliots Lori­mer, for­stöðumanns garðsins, var ferðamennska á árum áður álit­in „ljótt orð“ meðal heimanna og viðhorfið al­mennt það að þeir þyrftu ekki á ferðamönn­um að halda.

En þetta breytt­ist allt um miðjan tí­unda ára­tug síðustu ald­ar, m.a. í kjöl­far dýra­sjúk­dóma og breyt­inga á mörkuðum með land­búnaðar­vör­ur. Þá fór hið op­in­bera að skoða verk­efni til að efla svæðið með öðrum hætti. Ferðamennska fór í kjöl­farið að aukast og heima­menn að taka þátt með því að bjóða upp á bændag­ist­ingu og selja vör­ur sín­ar á bænda­mörkuðum svo dæmi séu tek­in.

Vernd­ar­svæðið var stofnað það snemma á síðustu öld að heima­menn voru ekki fengn­ir að borðinu á þeim tíma. Þeir eru hins veg­ar hafðir með í ráðum í dag og taka þátt í þróun og skil­grein­ingu verk­efna sem farið er í. Það sama má segja um innviðaupp­bygg­ingu. Þar er nú hægt að njóta marg­vís­legr­ar afþrey­ing­ar s.s. göngu­ferða, hjól­reiða, út­reiða og fugla­skoðunar. Eitt af því sem gerst hef­ur síðustu ár að sögn Lori­mers er að fyr­ir­tæki hafa sótt eft­ir sam­vinnu við garðinn. Þau vilja leiðbein­ing­ar um hvernig þau geta orðið „græn-fyr­ir­tæki“. Síðustu ár hafa svo sí­fellt fleiri ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki heitið sjálf­bærni og fengið græn­vott­un að laun­um.

Lori­mer sagði það mik­il­vægt að heima­menn þekktu sér­stöðu síns svæðis og væru stolt­ir af henni. Með þeim hætti hafi ýmis tæki­færi opn­ast og sérstaðan verið nýtt til að byggja afþrey­ingu á og fram­leiða og selja vör­ur, m.a. mat­væli. Aðrir reka svo kaffi­hús og krár þar sem þess­ara afurða svæðis­ins er neytt.

Litlu, stór­kost­legu augna­blik­in

Á síðustu miss­er­um hef­ur Bow­lands-skóg­ur svo verið kynnt­ur sem svæði án ljós­meng­un­ar en þau eru ekki á hverju strái á Bret­lands­eyj­um. Þetta geta fyr­ir­tæki unnið með og nýtt sér í sinni þjón­ustu s.s. með því að lána gest­um teppi svo þeir geti notið stjörnu­bjarts him­ins ut­an­dyra, selt þeim kaffi og boðið aðgang að sjón­auk­um.

Í Bowlands-skógi í Englandi er að finna ýmsar menningarminjar. Innan …
Í Bow­lands-skógi í Englandi er að finna ýms­ar menn­ing­ar­minj­ar. Inn­an vernd­ar­svæðis­ins er byggð og at­vinnu­líf.

Lori­mer sagði að gest­ir Bow­lands-skóg­ar kunni að meta litlu stór­kost­legu augna­blik­in, „the little wows“ eins og hann kallaði það. Þegar fólk upp­lifi slík augna­blik í heim­sókn sinni komið það aft­ur og hvetji aðra til að koma.

„Við verðum að virða það að þetta er lif­andi lands­lag,“ sagði Lori­mer. „Þarna býr fólk og starfar. Við verðum að vinna með þessu fólki og fá það með okk­ur í leiðang­ur­inn. [...] Við þurf­um á þrótt­miklu sam­fé­lagi að halda.“

Þjóðgarður sem skap­ar millj­arða

Jukka Siltan­en rann­sakaði efna­hags­leg áhrif Þjóðgarðsins Snæ­fells­jök­uls í meist­ara­verk­efni sínu frá HÍ á síðasta ári. Sam­kvæmt niður­stöðum hans, sem kann kynnti á ráðtstefn­unni, má tengja 700 störf við heim­sókn­ir gesta í garðinn á svæðis- og landsvísu. Hver króna sem lögð er til starf­sem­inn­ar skil­ar 58 krón­um inn í efna­hags­lífið. Jukka komst að því að efna­hags­leg áhrif Þjóðgarðsins Snæ­fells­jök­uls reynd­ust vera 3,9 millj­arðar króna á ári. 

Það sem var rétt er orðið rangt

Sig­urður Gísli minnti í ávarpi sínu við upp­haf ráðstefn­unn­ar á að Íslend­ing­ar ættu rík­an menn­ing­ar­arf og meiri nátt­úru­auðæfi en flest­ar þjóðir. „Við get­um virkjað þessi verðmæti í sátt við um­hverfið og okk­ur ber að skoða mögu­leik­ana til hlít­ar.“

Ráðstefnuhaldarar og fyrirlesarar: Sigurður Gísli Pálmason, stofnandi Hrífanda - félags …
Ráðstefnu­hald­ar­ar og fyr­ir­les­ar­ar: Sig­urður Gísli Pálma­son, stofn­andi Hríf­anda - fé­lags um nátt­úru­menn­ingu, Sal­vör Jóns­dótt­ir skipu­lags­fræðing­ur og ráðstefn­u­stjóri, Migu­el Clü­sener-Godt verk­efna­stjóri Man and the Bi­osph­ere hjá UNESCO, Jukka Siltan­en, MS í auðlinda- og um­hverf­is­fræðum, Rita Johan­sen frá Vega-eyja­klas­an­um, Peter Cra­ne frá Cairn­g­orms-þjóðgarðinum, Carol Ritchie frá Sam­stök­um þjóðgarða í Evr­ópu og Elliott Lori­mer frá Bow­lands-skógi.

Rifjaði hann upp lag­lín­ur Bob Dyl­ans sem söng fyr­ir um hálfri öld: Times they are chang­in‘. „Hann hafði rétt fyr­ir sér. Tím­arn­ir breyt­ast hraðar nú en nokkru sinni fyrr,“ sagði Sig­urður Gísli og sagði það ekki síst eiga við um vernd­un og nýt­ingu nátt­úr­unn­ar.

„Það sem var rétt fyr­ir tutt­ugu árum er rangt í dag. [...] Ósnert nátt­úra er verðmæt­ari en röskuð nátt­úra. Formúl­an fyr­ir hundrað árum eða svo var sú að stór­fellt inn­grip í nátt­úr­una skapaði störf og tekj­ur fyr­ir sam­fé­lagið. Ósnert nátt­úra skapaði eng­in störf og eng­ar tekj­ur. Nú hef­ur þetta snú­ist við [...]. Stór­fellt inn­grip í nátt­úr­una skap­ar sára­fá störf og sára­litl­ar tekj­ur fyr­ir sam­fé­lagið. Ósnert nátt­úra skap­ar fjölda starfa og sam­fé­lags­leg­ar tekj­ur sem fjár­magna heilsu­gæslu og skóla­kerfi. Þeir sem ekki átta sig á þessu mun verða sópað burt af straumþungu fljóti breyttra tíma.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert