Þorsteinn Halldórsson, sem dæmdur var í síðasta mánuði í sjö ára fangelsi fyrir nauðgun og önnur brot í Héraðsdómi Reykjaness, er grunaður um kynferðisbrot í öðru máli sem hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Theodór Kristjánsson, yfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir við mbl.is að maðurinn sem dæmdur var í sjö ára fangelsi, og fjölmiðlar greindu frá að væri Þorsteinn Halldórsson, er grunaður í öðru kynferðisbrotamáli sem nú er til rannsóknar hjá embættinu.
Málið hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni frá því í haust að sögn Theodórs. „Rannsókn okkar er langt komin og er nú hjá ákærusviði embættisins til yfirferðar,“ segir hann. Theodór segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Þorsteinn var dæmdur 18. maí síðastliðinn, en tvær ákærur sem sneru að fleiri brotum gegn sama dreng höfðu verið lagðar fram. Í fyrri ákærunni sneri málið að því að Þorsteinn hafi, þegar drengurinn var 15 til 17 ára, ítrekað tælt hann með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum. Hann á að hafa nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum vegna aldurs- og þroskamunar.
Þorsteinn var einnig dæmdur fyrir að hafa nauðgað drengnum þegar drengurinn var 18 ára. Hann er sagður í dómi hafa gefið brotaþola mikið magn lyfja og nýtt sér ástand drengsins til þess að eiga samræði við hann dögum saman í janúar á þessu ári.
Daginn sem Þorsteinn var dæmdur sagði verjandi hans, Guðrún Björg Birgisdóttir, í samtali við blaðamann mbl.is að Þorsteinn hygðist áfrýja dómnum á grundvelli sakleysis. Hann gerir einnig athugasemdir við sönnunargögn og málsmeðferð er snúa að seinni ákærunni.
Í febrúar ræddu foreldrar drengsins við blaðamann mbl.is og bentu á að þau hafi reynt árangurslaust að fá barnavernd og lögreglu til þess að aðstoða sig. Lögreglan á að hafa tjáð foreldrum drengsins að vegna aldurs hefði drengurinn sjálfur þurft að leggja fram kæru á hendur Þorsteini, en hann var orðinn 15 ára þegar Þorsteinn fór að brjóta gegn honum.
„Það er ótrúlegt hvað mikið þurfti að ganga á þangað til eitthvað gerðist. Drengurinn var orðinn gjörsamlega heilaþveginn af þessum manni, orðinn háður dópi og tóbaki. Karlinn kaupir handa honum endalaust af tölvuleikjum og eins síma. Hann á drenginn í rauninni á þessum tíma,“ hefur mbl.is eftir móður drengsins.