Líkami Birnu Brjánsdóttur var settur í Ölfusá, við Óseyrarbrú, þaðan sem hann rak á einni viku upp í fjöru skammt vestan við Selvogsvita, þar sem hann fannst eftir mikla leit 20. janúar 2017.
Þetta er niðurstaða dómkvadds haffræðings sem skilað hefur matsskýrslu til Héraðsdóms Reykjavíkur og Fréttablaðið greinir frá í dag.
Það var fyrrverandi verjandi Thomasar Møller Olsen sem fór fram á að dómkvaddur matsmaður yrði fenginn til að meta hvar líklegast væri að líkama Birnu hefði verið komið fyrir í sjó að teknu tilliti til hafstrauma, veðurfars, landslags og fleira.
Í rökstuðningi með beiðni verjandans segir að af gögnum málsins hefði Thomas ekki getað ekið nema um 130 km milli kl. 6 og 11 morguninn 14. janúar 2017, en hafi líkama Birnu verið komið fyrir í sjó utan þeirrar vegalengdar megi útiloka sekt Thomasar.
Við rannsókn málsins varð aldrei upplýst með öruggum hætti hvað Thomas hafðist að frá kl. 7 til 11 morguninn 14. janúar. Samkvæmt framburði stjórnenda rannsóknarinnar hafi 130 til 150 óútskýrðir kílómetrar verið eknir á bílaleigubíl þeim sem Thomas hafði á leigu.
Fréttin í heild sinni í Fréttablaðinu