Náttúruöflin áþreifanleg í Hítardal

00:00
00:00

„Þetta er óþægi­legt. Maður veit ekki um fram­haldið, maður bíður bara eft­ir því að eitt­hvað ger­ist eða ekki. Það er óþægi­legt að þurfa kannski að bíða lengi, mörg ár jafn­vel. Það lít­ur alla­vega út fyr­ir að þetta muni ger­ast ein­hvern­tím­ann, en það er ekki við það ráðið hvenær það verður,“ seg­ir Finn­bogi Leifs­son, bóndi í Hít­ar­dal, um sprung­una sem hef­ur mynd­ast í Fagra­skóg­ar­fjalli í Hít­ar­dal í kjöl­far skriðunn­ar sem féll þann 7. júlí. Skriðan endaði aðeins ör­fá­um kíló­metr­um frá bæ Finn­boga.

Þegar blaðamaður og ljós­mynd­ari mbl.is nálguðust skriðusárið við lónið sem skriðan myndaði, leið ekki á löngu þar til drun­ur tóku að heyr­ast og all­mik­ill ryk­mökk­ur steig upp úr fjall­inu. Nátt­úru­öfl­in eru áþreif­an­leg í Hít­ar­dal og set­ur skriðusárið mark sitt á dal­inn.

„Þetta er bara nátt­úr­an“

Finn­bogi seg­ir bænd­ur á svæðinu ekki hafa talað sig sam­an um það hvernig skuli bregðast við aðstæðum, þar sem erfitt sé að var­ast hrunið með nokkr­um hætti ef til þess kem­ur. 

„Maður pass­ar sig bara að vera ekki á svæðinu þarna. Annað er svo sem ekki hægt að var­ast held ég. Þetta er bara nátt­úr­an,“ seg­ir Finn­bogi.

Sprung­an upp­götvaðist um síðustu helgi þegar starfs­menn Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru með æf­ing­ar í grennd við fram­hlaupið í Hít­ar­dal. Sprung­an hef­ur opn­ast á fjall­inu skammt frá brotsári fram­hlaups­ins og er á sömu slóðum og hrunið sem varð úr toppi fram­hlaups­ins 13. júlí í inn­an­verðu skriðusár­inu.

Rykmökkur steig upp úr skriðusárinu þegar blaðamaður og ljósmyndari virtu …
Ryk­mökk­ur steig upp úr skriðusár­inu þegar blaðamaður og ljós­mynd­ari virtu svæðið fyr­ir sér úr ör­uggri fjar­lægð. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Spreng­ing gæti leyst óviss­una

Veður­stof­an greindi frá því að spild­an sem hef­ur losnað frá brún fjalls­ins sé á bil­inu 50-150 þúsund rúm­metr­ar, en hrun af þess­ari stærðargráðu er ekki talið geta borist langt niður á lág­lendi og mun efnið því lík­lega falla ofan á fram­hlaups­urðina sem myndaðist í júlí.  

Finn­bogi tel­ur að best væri ef hrunið myndi falla sem fyrst, þar sem líða tek­ur að smöl­un og bænd­ur á svæðinu vilja freista þess að búa til slóða fyr­ir skepn­ur yfir skriðuna þegar fram líða stund­ir. 

„Það er senni­lega eng­inn til­bú­inn til að sprengja þarna niður þannig að þetta sé farið, það er ekki von á því menn vilji það,“ seg­ir Finn­bogi sposk­ur, en þó skynj­ar blaðamaður nokkra al­vöru í orðum hans. „Maður vill bara fá þetta niður strax. Þetta fer sjálfsagt þannig að skriðan síg­ur og á end­an­um verður hægt að búa til ein­hvern ýtu­slóða þar yfir. Alla vega fyr­ir skepn­ur; hesta, kind­ur og slíkt.“

Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal.
Finn­bogi Leifs­son, bóndi í Hít­ar­dal. mbl.is/​Eggert

Set­ur mark sitt á smöl­un 

Hann seg­ir að bænd­ur í Hít­ar­dal hafi þá enn tals­verðar áhyggj­ur af eftir­köst­um skriðunn­ar. „Við höf­um enn þá áhyggj­ur af ár­far­veg­in­um, vatn­inu í Hítaránni, mögu­leg­um skemmd­um og fisk­gengd auk ann­ars sem ekki ligg­ur fyr­ir hvernig mun þró­ast. 

Einna helst valdi óviss­an tengd sprung­unni þó áhyggj­um. „Óviss­an er alltaf óþægi­leg, í hverju sem er nátt­úru­lega. Og þetta er sér­stak­lega vont fyr­ir þá bænd­ur sem nota þetta beiti­land hérna fyr­ir vest­an. Það fer að líða að því að þeir þurfi að reka féð til byggða og þeir hafa jafn­an rekið féð beint niður úr fjall­inu en þeir geta það vænt­an­lega ekki núna,“ seg­ir Finn­bogi og bend­ir á að þeir taki eindald­lega ekki þá áhættu að reka féð niður í grennd við skriðusárið ef spild­an skildi hrynja. 

Veður­stof­an hef­ur varað við því að fólk nálg­ist skriðuna vegna hættu á að spild­an hrynji. „Það er erfitt að passa að fólk sé ekki á svæðinu. Það mættu al­veg vera fleiri skilti sýni­leg, þá er alla­vega mögu­leiki fyr­ir fólk að fara eft­ir því,“ seg­ir Finn­bogi.  

Skriðan setur mark sitt á dalinn. Skriðan er ein sú …
Skriðan set­ur mark sitt á dal­inn. Skriðan er ein sú stærsta sem fallið hef­ur á sögu­leg­um tíma á Íslandi, en sam­kvæmt mæl­ing­um Veður­stofu Íslands er hún 10 til 20 millj­ón­ir rúm­metra mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert