Þarf ekki að máta úlpuna í dómsal

Thomas Möller Olsen leiddur fyrir dómara í héraðsdómi í fyrra.
Thomas Möller Olsen leiddur fyrir dómara í héraðsdómi í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Thomas Møller Ol­sen mun ekki þurfa að máta úlpu við aðalmeðferð í Landsrétt, en deilt er um hvort hann hafi getað klæðst henni. Er hún meðal sönnunargagna, en blóð úr Birnu Brjánsdóttur fannst í úlpunni. Thomas var dæmdur í 19 ára fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa myrt hana í janúar í fyrra. Mátaði Thomas úlpuna hjá lögreglu og verða myndir af því lagðar fyrir dóminn. Þetta var meðal þess sem kom fram í öðru undirbúningsþinghaldi fyrir aðalmeðferð málsins sem verður næstkomandi mánudag. Var deilt um framlagningu ýmissa gagna og vitnaskýrslur við þinghaldið.

Björgvin Jónsson, verjandi Thomasar, hafði óskað eftir að leiða tvö grænlensk vitni fyrir dóminn. Annar var skipverji á Polar Nanoq og hafði meðal annars verið farþegi í bíl með Thomasi fyrr um daginn. Seinni maðurinn er vinur Nikolaj Olsen, sem einnig var handtekinn á sínum tíma en ekki ákærður og hefur vörn Thomasar gengið út á að Nikolaj hafi ráðið Birnu bana. Hringdi Nikolaj í þennan mann nóttina afdrifaríku. Sagði Björgvin nauðsynlegt að fá vitnin fyrir dóm til að meta trúverðugleika þeirra.

Dómari hafnaði því að fá vitnin til landsins, en tekin verður af þeim símaskýrsla. Hafði saksóknari meðal annars bent á að vörnin hefði ekki talið þörf á að fá vin Nikolaj þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi og þá væri mikið óhagræði fólgið í því að fá þau til landsins, sérstaklega í ljósi þess að þau hefðu ekki verið bein vitni að neinum atburði sem tengdist málinu.

Verjandinn hefur einnig látið útbúa þrívíddargreiningu á myndefni sem tekið var við golfskála GKG í Hnoðraholti. Segir verjandinn að myndefnið sýni að enginn maður hafi verið í farþegasæti bílsins þegar ekið var við golfskálann. Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari og saksóknari málsins, sagðist hins vegar hafa efasemdir um þetta gagn og að myndbandsupptakan sjálf væri of ógreinileg. „Þetta er þarflaust gagn sem mun ekki segja neitt um sakarefnið,” sagði hún. Dómari féllst hins vegar á að leggja mætti gagnið fyrir og að um það yrði tekist á í málflutningi.

Þá hafði verjandi einnig lagt fram myndir af Instagram-reikningi unnustu Nikolaj þar sem hann sést meðal annars í bifreið. Vill verjandinn meina að þetta sýni fram á að Nikolaj sé kunnugur akstri þótt hann sé ekki með ökuréttindi. Þá var einnig mynd af honum á bát haldandi um stýrið. Sigríður sagði myndina í bílnum ekki sýna neitt, enda væri ekki ljóst hvort hann væri að keyra eða ekki.

Dómari heimilaði að myndirnar væru hluti af gögnum málsins, en tók fram að aðrar myndir frá Instagram-reikningnum sem einnig höfðu komið með beiðni verjandans ættu ekki erindi. Hafði saksóknari reyndar haft hörð orð um að verjandi hafi lagt þær myndir fram. „Eru prívat myndir. Hvaða erindi eiga þessar myndir inn í morðmál?“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka