Refsing héraðsdóms „síst of þung“

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði að refsing Thomasar í héraðsdómi …
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði að refsing Thomasar í héraðsdómi hefði síst verið of þung. Mynd úr safni. mbl.is/Þórður

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði í munnlegum málflutningi sínum í máli Thomasar Møller Olsen nú síðdegis að sönnunargögn málsins sýndu að enginn skynsamlegur vafi væri uppi um hvort Thomas hefði svipt Birnu Brjánsdóttur lífi. Því bæri Landsrétti að sakfella hann.

Hún fór yfir þau sönnunargögn sem til staðar eru í málinu, meðal annars blóði drifinn bílaleigubílinn, lífsýni úr Thomasi sem voru á skóm Birnu sem fundust við Hafnarfjarðarhöfn, fingrafar Thomasar á ökuskírteini Birnu sem fannst í ruslatunnu um borð í togaranum Polar Nanoq, auk þess sem Thomas gæti ekki eða vildi ekki gera grein fyrir ferðum sínum að morgni laugardagsins 14. janúar, jafnvel þegar hann sæi fram á margra ára fangelsisdóm.

Sigríður sagði jafnframt að framburður hans fyrir héraðsdómi, þar sem reynt hafi verið að varpa sök á saklausan mann, Nikolaj W. Herluf Olsen, hafi verið haldlaus. Hún sagði sakborninginn hafa gert allt sem hann gæti til þess að koma sökinni á einhvern annan. Líta mætti til þess að þyngja refsingu hann með tilliti til þess – og að ákæruvaldið liti svo á að sú refsing sem Thomasi var gerð af Héraðsdómi Reykjaness hefði síst verið of þung.

Lýsandi dæmi um rangan framburð Thomasar sagði Sigríður að birtist í því hvernig hann hefði útskýrt það að hafa eytt þó nokkurri stund í að þrífa Kia Rio-bifreiðina þar sem atlagan að Birnu fór fram. Myndskeið sýnir Thomas þrífa bifreiðina „afar vandlega“, alveg upp á þak hennar, sem er sérkennilegt því að sjálfur lýsti hann því að hann hefði bara séð einn ælublett í bílnum – og voru þeir þó mjög greinilegir.

Thomas Møller Olsen gengur í dómsal í Landsrétti í morgun.
Thomas Møller Olsen gengur í dómsal í Landsrétti í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Þessi miklu þrif útskýrði Thomas í morgun með því að „Grænlendingar væru snyrtilegir“. Sigríður sagðist ekki draga það í efa að Grænlendingar væru snyrtilegir, en þó væri frásögn hans hvað þetta atriði og margt annað varðar, ekki trúanleg.

Gerði kröfur fyrir hönd foreldranna

Hanna Lára Helgadóttir, lögmaður foreldra Birnu, sem gera einkaréttarkröfu á hendur Thomasi, lýsti því hvaða áhrif morðið á Birnu hefði haft á þau. Sagði hún þau bæði enn vera að vinna í afleiðingum þess að missa dóttur sína með þessum voveiflega hætti.

Þá hefði umfjöllun almennings um málið, sem Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefði lýst sem „siðfári“, verið þeim þungbær. Þar að auki hefði umfjöllun fjölmiðla, bæði hér á landi og erlendis, valdið þeim auknum skaða, verið á stundum óvönduð og í æsifréttastíl og tafið fyrir því að þau gætu hafið sorgarferli.

Fyrir hönd skjólstæðinga sinna gerði Hanna Lára kröfu um 10,5 milljónir króna í miskabætur á mann, auk kröfu um útlagðan kostnað vegna útfarar Birnu.

Innan skamms flytur verjandi Thomasar, Björgvin Jónsson, mál sitt og með því lýkur aðalmeðferð í málinu hér fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka