Aðferðir lögreglumanna í skýrslutökum yfir Thomas Møller Olsen, sem Landsréttur dæmdi í dag í 19 ára fangelsi vegna morðsins á Birnu Brjánsdóttur, eru gagnrýndar í dóminum.
Fram kemur að allar yfirheyrslur yfir Olsen hjá lögreglu hafi farið fram að viðstöddum skipuðum verjanda hans og að þær hafi verið teknar upp í hljóði og mynd. Í fyrstu skýrslutökunni yfir honum lagði hann grunn að frásögninni sem hann hélt sig við þar til við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi. Sá framburður var ekki leiddur fram með þvingunum að neinu tagi eða leiðandi spurningum og lögreglumenn hafi komið fram við hann af fyllstu háttvísi, að því er kemur fram í niðurstöðu Landsréttar.
Í næstu skýrslutökum voru lögreglumenn aftur á móti ágengari og vændu Olsen um ósannsögli. „Lögreglumaður fullyrti meðal annars að ákærði hefði myrt brotaþola, keyrt eitthvað með líkið af henni og falið það. Þessar aðferðir við skýrslutöku eru andstæðar ákvæði 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. sem mælir meðal annars fyrir um að lögreglumaður sem annast yfirheyrslu skuli sýna kurteisi gagnvart sakborningi og vitnum og gæta þess að vera ávallt rólegur og tillitssamur.“
Samt sem áður kemur fram að yfirheyrsluaðferðirnar hafi ekki brotið í bága við lög. Landsréttur taldi að framkoma lögreglumanna við Olsen utan yfirheyrslna og framangreindar yfirheyrsluaðferðir hafi ekki haft þau áhrif á framburð hans að skýringar hans á breyttum framburði geti talist trúverðugar á nokkurn hátt.