Dómur yfir grænlenska skipverjanum Thomasi Møller Olsen verður kveðinn upp í Landsrétti klukkan 14:00 í dag. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi hann í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur í janúar í fyrra og stórfellt fíkniefnabrot en Thomas áfrýjaði dómnum.
Við aðalmeðferð fyrir Landsrétti í síðasta mánuði sagði Björgvin Jónsson, skipaður verjandi Thomasar, að það væri í besta falli ólíklegt að andlát Birnu hefði getað orðið með þeim hætti sem ákæruvaldið vildi meina.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði að sönnunargögn málsins sýndu að enginn skynsamlegur vafi væri uppi um hvort Thomas hefði svipt Birnu Brjánsdóttur lífi. Því bæri Landsrétti að sakfella hann.
Sigríður sagði jafnframt að framburður hans fyrir héraðsdómi, þar sem reynt hafi verið að varpa sök á saklausan mann, Nikolaj W. Herluf Olsen, hafi verið haldlaus. Hún sagði sakborninginn hafa gert allt sem hann gæti til þess að koma sökinni á einhvern annan.
Líta mætti til þess að þyngja refsingu hans með tilliti til þess – og að ákæruvaldið liti svo á að sú refsing sem Thomasi var gerð af Héraðsdómi Reykjaness hefði síst verið of þung.