Landsréttur fjallar um sakarkostnað í dómi sínum yfir Thomas Frederik Møller Olsen, sem var dæmdur í 19 ára fangelsi í dag fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur.
Í dómi Landsréttar var Olsen gert að bera samtals 28.940.017 krónur í sakarkostnað, sem fólst í 21.396.200 króna þóknun skipaðs verjanda hans, 2.830.137 króna útlögðum kostnaði hans og 4.713.680 króna útlögðum kostnaði lögreglu og ákæruvalds.
Yfirlit yfir tímaskráningu skipaðs verjanda í héraði og útlagðan kostnað hans var ekki lagt fram fyrir Landsrétti. Því voru ekki tök á að endurskoða þann hluta sakarkostnaðar og varð ákærði að bera hann.
Fram kemur í dóminum að rétt hafi verið að fella á ákærða sem sakarkostnað í héraði 550.000 króna kostnað við matsgerð bæklunarlæknis sem dómkvaddur var að ósk ákærða en reikningur vegna þess kostnaðar hefði átt að fylgja sakarkostnaðaryfirliti í héraði. Ákærði var því dæmdur til að bera samtals 29.490.017 króna sakarkostnað í héraði.
Fram kemur að lögð hafi verið fram vinnuskýrsla Málflutningsstofu Reykjavíkur, þar sem Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður starfar. Hann var skipaður verjandi Olsen þangað til hann skipti um verjanda 27. mars á þessu ári. Einnig var lagt fram yfirlit yfir útlagðan kostnað verjandans.
Landsréttur greinir frá því að vinnuskýrslan spanni að stærstum hluta tímabilið 8. september 2017 til 23. mars 2018. Skráðar eru 255,75 vinnustundir skipaðs verjanda og annarra starfsmanna lögmannsstofunnar í þágu ákærða vegna gæsluvarðhaldsúrskurða og vinnu við áfrýjun málsins, þar með talið matsmál sem tengdist áfrýjuninni. Af þessum vinnustundum eru 69,75 augljóslega tvítaldar að því er kemur fram í dóminum. Vegna ofangreindra mistaka við gerð vinnuskýrslunnar þyki lítið á henni byggjandi.
Af þeim 186 vinnustundum sem eftir standa er 51 vinnustund vegna ritunar greinargerðar, þar af 44 vegna „hafréttarhluta“ hennar. Hinn 23. mars 2018 er skráð að greinargerð sé kláruð að öðru leyti en varðar væntanlega matsgerð.
Fram kemur að skipaður verjandi Olsen fram til 27. mars 2018, Páll Rúnar, hafi lagt fram eftir uppkvaðningu héraðsdóms yfirlit útlagaðan kostnað, samtals að fjárhæð 884.638 krónur.
Einnig segir í dóminum að útlagður kostnaður verjandans vegna kaupa á fötum og púsli, samtals upp á tæpar 48 þúsund krónur, teljist ekki til sakarkostnaðar. Annar útlagður kostnaður verjandans, 836.680 krónur, telst til sakarkostnaðar.
Björgvin Jónsson, sem tók við sem verjandi Olsen af Páli Rúnari, lagði fram fyrir Landsrétti tímaskýrslu yfir 383,5 klukkustunda vinnu við vörn ákærða frá 22. mars 2018. Af þeim eru 116 vinnustundir skráðar vegna vinnu við greinargerð þrátt fyrir að Páll Rúnar hefði þá varið 51 klukkustund til greinargerðarskrifa og vinnu við hana væri að hans mati nánast lokið.
Þar að auki er skráð 172 klukkustunda vinna annarra lögfræðinga en Björgvins. Landsréttur bendir á lagagrein um meðferð sakamála þar sem kemur fram að verjandi skal sjálfur sinna starfsskyldum sínum, þar á meðal annast flutning máls en er þó heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann vera viðstaddan skýrslutöku og rannsóknarathafnir. Fram kemur að ekki verði séð af tímaskýrslu verjandans að umrædd vinna annarra lögmanna en hans falli undir fyrrnefnt undantekningarákvæði.
Einnig segir að dómstólar hafi játað skipuðum verjanda nokkuð rýmra svigrúm en gert er ráð fyrir til að leita aðstoðar fulltrúa sinna eða annarra lögmanna til að létta undir með málsvörn í umfangsmiklum sakamálum.
Nefnt er að sakborningi sé á öllum stigum máls heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna en sá kostnaður teljist ekki til sakarkostnaðar. Ekkert liggi fyrir í málinu um hvort störf annarra en skipaðs verjanda samkvæmt tímaskýrslunni voru unnin samkvæmt 32. eða 35. greina laga um meðferð sakamála.
„Af tímaskýrslunni og málsvörn ákærða verður ekki ráðið að sú vinna annarra lögmanna sem þar er tíunduð hafi dregið úr vinnu skipaðs verjanda. Með vísan til 1. málsliðar 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talinn útlagðan kostnað verjanda síns fram til 27. mars 2017 og málsvarnarlaun beggja verjendanna sem ákveðin eru, að teknu tilliti til framangreindra atriða, eins og í dómsorði greinir,“ segir í dómi Landsréttar.
Olsen var því dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði, 29.490.017 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Páls Rúnars M. Kristjánssonar og útlagðan kostnað hans eins og ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi.