Hæstiréttur hafnaði því í dag að taka fyrir mál Thomasar Møller Olsen sem dæmdur var í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur. Þar með er málinu lokið. Fjallað er um þetta á fréttavef Ríkisútvarpsins, en Thomas hefur setið í tvö ár í gæsluvarðhaldi.
Fram kom í kröfu verjanda Thomasar, Páls Rúnars Kristjánssonar, um að Hæstiréttur tæki málið fyrir að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið stórlega ábótavant og brotið í bága við stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu hafnar Hæstiréttur hins vegar.
Þá segir í fréttinni að ekki liggi fyrir hvort Thomas muni óska eftir því að fá að afplána dóm sinn í heimalandi sínu Grænlandi.