13 milljónir í réttindabaráttu hinsegin fólks

AFP

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur ákveðið að verja þrett­án millj­ón­um króna til UN Free & Equal, sér­staks verk­efn­is sem skrif­stofa mann­rétt­inda­full­trúa Sam­einuðu þjóðanna (OHCHR) held­ur utan um til að vinna að út­breiðslu rétt­inda hinseg­in fólks (LG­BTI) hvarvetna í heim­in­um. Fram­lagið er í sam­ræmi við áhersl­ur Íslands í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna en ráðið kem­ur til síns 41. reglu­lega fund­ar á morg­un í Genf í Sviss. Þetta kem­ur fram í frétt á vef ráðuneyt­is­ins.

Rétt­indi hinseg­in fólks hafa verið meðal helstu áhersluþátta Íslands í mann­rétt­indaráði SÞ en Ísland var fyr­ir réttu ári kjörið til setu í mann­rétt­indaráðinu. Þannig bar til dæm­is Ísland upp fleiri til­mæli en nokkuð annað ríki er snertu LG­BTI-rétt­indi í alls­herj­ar­út­tekt á stöðu mann­rétt­inda­mála í fjór­tán aðild­ar­ríkj­um SÞ í maí sl. Auk þess er rétt­ind­um hinseg­in fólks iðulega haldið til haga í mála­til­búnaði Íslands í ræðum og yf­ir­lýs­ing­um.

„Hinseg­in sam­bönd telj­ast enn glæp­ur í meira en þriðjungi ríkja heims. Með fjár­fram­lag­inu og áfram­hald­andi áherslu á rétt­indi hinseg­in fólks í mann­rétt­indaráðinu og þró­un­ar­sam­vinnu leggj­um við okk­ar lóð á vog­ar­skál­ar í þeirri viðleitni að breyta þessu. Við kunn­um að vera ólík, en öll eig­um við að njóta sömu mann­rétt­inda,“ seg­ir Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra, í frétt á vef ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Fjár­fram­lagið er sömu­leiðis í sam­ræmi við nýja stefnu Íslands í þró­un­ar­sam­vinnu fyr­ir árin 2019-2023, sem Alþingi samþykkti í maí sl., og nýrri skýrslu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins þar sem mörkuð er sú nálg­un að allt starf Íslands í þró­un­ar­sam­vinnu sé mann­rétt­inda­miðað. Ísland fylg­ist því sér­stak­lega grannt með stöðu mála hvað varðar rétt­indi hinseg­in fólks í sam­starfs­ríkj­um og áherslu­ríkj­um í þró­un­ar­sam­vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert