„Ekki mjög sniðugt í loftslagssamhengi“

„Það að auka flugsamgöngur er auðvitað andstætt því að ná …
„Það að auka flugsamgöngur er auðvitað andstætt því að ná niður losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Auður. mbl.is/Sigurður Bogi

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir niðurgreiðslu innanlandsflugs ekki heppilega í loftslagssamhengi og jafnframt ekki í takt við markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að honum litist vel á hugmyndir um niðurgreiddar flugsamgöngur innanlands sem samgönguráðherra hefur talað fyrir.

„Við höfum ekki tekið afstöðu til þessa sérstaklega en það að auka flugsamgöngur er auðvitað andstætt því að ná niður losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Auður.

Auður segir augljóst að niðurgreiðsla á flugfargjöldum hvetti fólk til að fljúga meira.

„Það finnst mér persónulega. Þess vegna er þetta ekki mjög sniðugt í loftslagssamhengi nema eitthvað rosalegt komi á móti þannig að það sé hægt að takmarka losun frá bílaflotanum einhvern veginn.“

Auður bendir á að einstaklingur sem keyrir einn til Akureyrar mengi almennt meira en einstaklingur sem kýs að fljúga þangað í þéttsetinni flugvél. Þó fer það eftir bílum.

„Við viljum mun frekar að peningar fari í að niðurgreiða almenningssamgöngur á landinu.“

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Auður segir að hugmyndir um niðurgreiðslu flugfargjalda séu ekki í takt við markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

 „Við höfum náttúrulega gagnrýnt mjög aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Hún nær alls ekki nógu langt og er ekki tímasett eða magnbundin og það er mjög erfitt að dæma hana vegna þess að hún er ekki magnbundin. Okkur finnst líka að hún þurfi að vera miklu víðtækari, hún þurfi að ná til fleiri geira samfélagsins.“

Umræða um rafflugvélar ótímabær

Guðmundur sagði í samtali við mbl.is í gær að möguleiki væri á að taka rafflugvélar eða blendingsflugvélar upp í náinni framtíð.

„Á meðan við erum ekki komin með þessar rafflugvélar þá er engin ástæða til þess að auka innanlandsflug sem er ekki flogið á rafflugvélum. Það kemur málinu í raun ekki við fyrr en rafflugvélar eru komnar í gagnið. Það eru einhverjar rafflugvélar sem hafa flogið styttri vegalengdir en ekki í farþegaflugi. Við erum náttúrulega með flugvélar sem þarf þá að úrelda og ég sé ekki fyrir mér að flugfélögin séu að fara að leggjast í neinn rosalegan kostnað til að endurnýja þetta allt saman. Ef við mennirnir leggjum mjög mikla áherslu á ákveðin atriði þá getum við náð ótrúlega miklum árangri á stuttum tíma.“

Auður segir að ef tillögum um niðurgreiðslu flugfargjalda innanlands fylgdi mótvægi væri það strax skömminni skárra.

„Stór hluti þeirra sem nota flugsamgöngur innanlands eru opinberir starfsmenn. Ef þessum tillögum fylgir það að opinberir starfsmenn ætli að draga úr sínu flugi og nota fjarfundabúnað í auknum mæli þá er það til dæmis jákvætt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka