Í uppfærðri samgönguáætlun sem nú er á samráðsgáttinni er gert ráð fyrir að 1,2 milljarðar fari í gerð hjólastíga á landsbyggðinni. Stjórnvöld búast við því að lagning hjólastíga muni spara fjármuni fyrir heilbrigðiskerfið og hið opinbera.
Ýmsar áætlanir eru uppi um hjólastíga á landsbyggðinni. Fyrst ber að nefna að áætlanir eru til um lengingu stígs frá Mosfellsbæ að Mógilsá í Kollafirði. Við undirbúning breikkunar hringvegarins um Kjalarnes er gert ráð fyrir skilgreindri hjólaleið allt að Hvalfjarðarvegi sunnan Hvalfjarðarganga.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Ólafs Þórs Gunnarssonar, þingmanns Vinstri grænna.
„Framkvæmdir við breikkun Hringvegar milli Hveragerðis og Selfoss eru hafnar og er gert ráð fyrir skilgreindri hjólaleið á þeim kafla. Um getur verið að ræða sjálfstæðan hjólreiðastíg eða skilgreinda hjólaleið á hliðarvegum með tiltölulega lítilli umferð og lægri umferðarhraða“, segir ráðherrann í svari sínu.
„Á næstu árum er fyrirhugað að styrkja stígagerð meðfram stofnleiðum í Suðurnesjabæ, Vogum, Borgarnesi, Grundarfirði, Dalvík, Akureyri, Skútustaðahreppi, Fjarðabyggð, Árborg og Ölfusi.“
Ein af fyrirspurnum Ólafs beinist að mati á hagrænum áhrifum hjólastíga. Við því segir Sigurður að rannsóknir á því sviði hafi víða verið gerðar.
Í skýrslu sérfræðinganefndar á vegum umhverfisráðuneytisins um möguleika á að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi kemur fram að í Kaupmannahöfn sé gert ráð fyrir að fyrir hverja milljón kílómetra á ári náist talsverður sparnaður. Hann er eftirfarandi:
„Það er ljóst að mikil þörf er fyrir þessar framkvæmdir. Í dreifbýli er þörf fyrir stíga fyrir hjólandi umferð meðfram umferðarmestu stofnvegum til að bæta umferðaröryggi. Í þéttbýli er þörf á hjólreiðastígum til að tryggja öruggar og greiðfærar leiðir fyrir hjólandi vegfarendur“, segir Sigurður sömuleiðis í svari sínu.