Steingrímur lýsir áhyggjum af þungum dómi Forcadell

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþinigs hefur ritað bréf til forseta …
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþinigs hefur ritað bréf til forseta Alþjóðaþingmannasambandsins og forseta Evrópuráðsþingsins vegna dómsins yfir Forcadell, sem áður var forseti katalónska þingsins. mbl.is/​Hari

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis sendi forseta Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og forseta Evrópuráðsþingsins bréf í gær þar sem hann lýsir áhyggjum af þungum fangelsisdómi sem Carme Forca­dell, fyrrum forseti Katalóníuþings, fékk fyrr í mánuðinum sem og löngu gæsluvarðhaldi á meðan á málaferlum stóð, ekki síst með hliðsjón af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Frá þessu er greint á vef Alþingis.

Forcadell er einn níu leiðtoga aðskilnaðarsinna í Katalóníu sem hlutu þunga dóma í hæstarétti Spánar 14. október síðastliðinn, en alls voru nímenningarnir dæmdir í meira en 100 ára fangelsi samanlagt. Mikil mótmæli blossuðu upp í Barcelona í kjölfarið.

Carme Forcadell fékk 11 og hálfs árs dóm fyrr í …
Carme Forcadell fékk 11 og hálfs árs dóm fyrr í mánuðinum. AFP

„Forseti kveðst í bréfinu til forseta Evrópuráðsþingsins gera sér grein fyrir að Katalónía sé ekki aðili að Evrópuráðsþinginu, heldur hluti aðildarríkisins Spánar. Engu að síður sé mikilvægt að grunngildi Evrópuráðsins um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið séu leiðarstef aðildarríkja. Þá vekur forseti Alþingis athygli á að Evrópuráðsþingið hafi tekið upp málefni einstaka ríkja í ljósi þessara grunngilda og hvetur til þess að ígrundað sé vandlega af hálfu Evrópuráðsþingsins hvort málefni Katalóníu verðskuldi ekki frekari skoðun. Loks lýsir forseti þeirri von sinni að málið megi leiða til lykta með pólitískum, lýðræðislegum og friðsamlegum hætti,“ segir um efnis bréfsins á vef Alþingis.

Í bréfi sínu til forseta Alþjóðaþingmannasambandsins lýsir Steingrímur sambærilegum áhyggjum og vekur einnig athygli á að ekki er verið að ræða málefni aðila að IPU, heldur innri málefni aðildarríkisins Spánar.

„Forseti Alþingis lýsir á sama hátt þeirri von sinni að málið megi leysa með pólitískum, lýðræðislegum og friðsamlegum hætti í anda upprunalegs markmiðs IPU að „efla frið með samtali og þinglegum tengslum“ (e. parliamentary diplomacy),“ samkvæmt því sem segir á vef Alþingis.

Forcadell er ein níu leiðtoga katalónskra aðskilnaðarsinna sem hlutu dóma …
Forcadell er ein níu leiðtoga katalónskra aðskilnaðarsinna sem hlutu dóma fyrr í mánuðinum. Hún er hér önnur frá vinsri í neðri röð. Efri röð frá vinstri: Raul Romeva, Joaquim Forn, Jordi Turull, Oriol Junqueras, Josep Rull. Neðri röð frá vinstri: Jordi Cuixart, Carme Forcadell, Dolors Bassa and Jordi Sanchez. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert