„Okkur brá mjög mikið“

Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Vala Ómarsdóttir, höfundar stuttmyndarinnar ÉG, að …
Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Vala Ómarsdóttir, höfundar stuttmyndarinnar ÉG, að loknum tökum. Myndin var sýnd á hinsegin kvikmyndahátíð í Rússlandi á dögunum en sýning á myndinni frestaðist um nokkra daga sökum sprengjuhótunar. Ljósmynd/Aðsend

Kvik­mynda­gerðar­kon­un­um Hall­fríði Þóru Tryggva­dótt­ur og Völu Ómars­dótt­ur var óneit­an­lega mjög brugðið þegar þeim bár­ust fregn­ir af því á dög­un­um að sýn­ingu á stutt­mynd þeirra, ÉG, var frestað á hinseg­in kvik­mynda­hátíð í Rússlandi vegna sprengju­hót­ana. „Okk­ur brá mjög mikið og maður fór strax að hugsa til hátíðargesta,“ seg­ir Hall­fríður í sam­tali við mbl.is. 

ÉG er skrifuð og leik­stýrð af Hall­fríði og Völu en þær hafa unnið sam­an í nokk­ur ár und­ir merkj­um GERVI Producti­ons og er stutt­mynd­in þeirra stærsta sam­eig­in­lega verk­efni til þessa. Mynd­in er inn­blás­in af reynslu Uglu Stef­an­íu Kristjönu­dótt­ur Jóns­dótt­ur, einn­ar helstu tals­mann­eskju trans fólks á Íslandi. 

Hátíðin bönnuð af stjórn­völd­um frá upp­hafi

Mynd­in var frum­sýnd á ís­lensku kvik­mynda­hátíðinni RIFF í fyrra­haust og fyr­ir nokkr­um mánuðum sýndu for­svars­menn Side by Side LGBT kvik­mynda­hátíðar­inn­ar í St. Pét­urs­borg mynd­inni áhuga. „Teymið þeirra vildi sjá mynd­ina og skömmu síðar var okk­ur boðin þátt­taka. Við sögðum já á stund­inni og erum mjög þakk­lát­ar fyr­ir að taka þátt í svona mik­il­vægri hátíð en þetta er eina hátíð hinseg­in kvik­mynda í Rússlandi,“ seg­ir Hall­fríður. 

Hátíðin var sett 14. nóv­em­ber og fyrsta sprengju­hót­un­in barst strax á opn­un­ar­at­höfn hátíðar­inn­ar og héldu þær ít­rekað áfram yfir helg­ina. „Mynd­in okk­ar átti að vera sýnd föstu­dags­kvöldið 15. nóv­em­ber og allt virt­ist ætla að ganga upp. Við frétt­um ekki af þessu fyrr en við sáum til­kynn­ingu á sam­fé­lags­miðlum um að það hafi þurft að rýma So­kos hót­elið þar sem hátíðin fer fram og að sýn­ing­unni hafi verið frestað,“ seg­ir Hall­fríður.  

Hinseg­in sam­fé­lagið í Rússlandi hef­ur mátt sæta mikl­um for­dóm­um og rétt­inda­bar­átta sam­kyn­hneigðra er skammt á veg kom­in í Rússlandi. Eins sorg­legt og það kann að hljóma hafa sprengju­hót­an­ir fylgt Side by Side kvik­mynda­hátíðinni allt frá því að hún var hald­in í fyrsta skipti árið 2008 en þá var hátíðin bönnuð af rúss­nesk­um yf­ir­völd­um. „Síðan þá hef­ur hátíðin verið hald­in ár­lega en það hafa komið upp sprengju­hót­an­ir og mót­mæli, meira að segja frá þing­manni. Ástandið er alls ekki gott þarna,“ seg­ir Hall­fríður.

Snæfríður Ingvarsdóttir, Vala Ómarsdóttir, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Ugla Stefanía …
Snæfríður Ingvars­dótt­ir, Vala Ómars­dótt­ir, Hall­fríður Þóra Tryggva­dótt­ir og Ugla Stef­an­ía Kristjönu­dótt­ir Jóns­dótt­ir á frum­sýn­ingu ÉG á RIFF haustið 2018. Ljós­mynd/​Aðsend

Fannst vanta fleiri kvik­mynd­ir um trans fólk

Eng­inn fót­ur virt­ist vera fyr­ir sprengju­hót­un­un­um, sem bet­ur fer, og var nýj­um sýn­ing­ar­tíma fyr­ir mynd­ina komið á nokkr­um dög­um seinna og seg­ir Hall­fríður það hafa verið mik­inn létti að sjá að allt gekk vel að lok­um. „Það var full­ur sal­ur af fólki og rosa góðar mót­tök­ur. Það er alltaf pínu skrítið þegar maður er ekki á staðnum til þess að heyra viðbrögð og svara spurn­ing­um úr sal en það er oft þannig með stutt­mynd­ir sem flakka um heim­inn,“ bæt­ir hún við. 

ÉG var sem fyrr seg­ir frum­sýnd á RIFF í fyrra og var frum­sýnd er­lend­is í mars á þessu ári. Síðan þá hef­ur mynd­in verið sýnd á fjöl­mörg­um hátíðum og verið þýdd yfir á 13 tungu­mál. Mynd­in hlaut verðlaun fyr­ir bestu stutt­mynd­ina á Vancou­ver In­ternati­onal Women in Film Festi­val, var heiðruð af dóm­nefnd Out­fest-kvik­mynda­hátíðar­inn­ar í Lost Ang­eles og var val­in besta leikna stutt­mynd­in á Trans Pri­de Bright­on. Mynd­in var einnig hluti af alþjóðlega verk­efn­inu Five Films 4 Freedom á veg­um Brit­ish Film Institu­te og Brit­ish Council. Í þess­um mánuði hef­ur mynd­in verið sýnd í Rússlandi, Lit­há­en, Hollandi og Þýskalandi, og hún var meðal ann­ars á hátíðum í Dan­mörku, Kan­ada og Banda­ríkj­un­um fyrr í haust.

ÉG átti í fyrstu að vera leik­sýn­ing en í miðju rann­sókn­ar­ferli komust Hall­fríður og Vala að því að kvik­mynda­miðill­inn væri hent­ugri leið til að segja sög­una. „Okk­ur fannst vanta fleiri leikn­ar kvik­mynd­ir um trans fólk og allt mynd­málið sem við Vala höfðum í huga hentaði mun bet­ur fyr­ir kvik­mynd. Við gáf­um okk­ur góðan tíma til þess að vinna hand­ritið og allt var unnið í mjög nánu sam­starfi við Uglu,“ seg­ir Hall­fríður. 

ÉG fjall­ar um unga trans mann­eskju og mik­il­vægi þess að fá að vera maður sjálf­ur. Leik­ar­ar í helstu hlut­verk­um eru Snæfríður Ingvars­dótt­ir, María Thelma Smára­dótt­ir, Krist­björg Kj­eld og Elva Ósk Ólafs­dótt­ir.

Mynd­inni hef­ur verið vel tekið víða og stefna Hall­fríður og Vala á að sýna mynd­ina á fleiri kvik­mynda­hátíðum er­lend­is og einnig hér heima. „Þegar við frum­sýnd­um mynd­ina á RIFF í fyrra unn­um við sam­starfs­verk­efni með Sam­tök­un­um ´78 og sýnd­um mynd­ina fyr­ir mennta­skóla­nema í Reykja­vík en það er al­gjör­lega eitt­hvað sem okk­ur lang­ar að gera meira af,“ seg­ir Hall­fríður. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert