Töluverður verðmunur reyndist á jólakörfu í verðkönnun Alþýðusambandsins, sem framkvæmd var í vikunni. Bónus var oftast með lægsta verðið, á 75 vörum af 122, en dýrust var verslunin Iceland, sem mældist með hæsta verð í 57 tilvikum.
Í tilkynningu frá ASÍ segir að sérstakur munur hafi reynst á ýmsum algengum jólavörum, svo sem konfekti, ávöxtum og grænmeti. Lægsta verð á kjöti dreifðist nokkuð milli búða, en sem dæmi er teki að úrbeinað hangilæri frá KEA var ódýrast í Kjörbúðinni, þar sem kílóverðið var 2.993 krónur, en dýrast í Iceland, þar sem það var 4.999 krónur. Munar þar 67%.
Þá munaði 76% á verði tveggja kílóa Machintosh-dósar, en hún var ódýrust í Bónus, á 2.269 krónur og dýrust í Iceland, á 3.999 krónur.
Segir í tilkynningunni að verðmunur á milli verslana sé það mikill að hann sé fljótur að hlaupa á þúsundum króna þótt aðeins séu nokkrar vörur keyptar. Þannig kostar vörukarfa, sem aðeins samanstendur af fjórum vörum, úrbeinuðum hamborgarhrygg, kassa af laufabrauði, hátíðarsíld og Machintosh-dós, rúmum 5.800 krónum meira í Iceland en í Bónus.
Sem fyrr segir var Bónus oftast með lægsta verð, en næst á eftir kom Fjarðarkaup, með lægsta verð í 19 tilvikum og því næst Krónan í 14 tilvikum. Verslun Iceland var áberandi dýrust í könnuninni, með hæsta verð í 75 tilvikum en því næst Hagkaup með hæsta verð í 24 tilvikum.
Munur á hæsta og lægsta verði reyndist oftast á bilinu 20—40% eða í 50 tilvikum, en næstoftast á bilinu 40—60%, í 25 tilvikum.
Verðlagseftirlit ASÍ sá um könnunina og var verðsamanburður gerður í Nettó Mjódd, Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Garðabæ, Kjörbúðinni Sandgerði, Super 1, Heimkaupum og netto.is.