154 þúsund króna munur á skóladagvistargjöldum

Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat milli …
Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat milli sveitarfélaga en 68% eða 17.157 króna munur er hæstu og lægstu mánaðargjöldunum. mbl.is/Hari

Heildargjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins hækkuðu í öllum tilvikum milli ára en voru alltaf um eða undir 2,5% nema í tilviki Seltjarnarness þar sem gjöldin hækkuðu mest, um 10,1%.

Þetta eru niðurstöður verðkönnunar Alþýðusambands Íslands á skóladagvistun og skólamat.

Hækkun gjalda á Seltjarnarnesi nemur 3.875 krónum, eða 34.875 krónum á ári miðað við níu mánaða vistun. Gjöldin á Seltjarnarnesi voru þau hæstu meðal 15 stærstu sveitarfélaganna fyrir breytinguna og eru enn.

Minnstu hækkanir á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat voru í Mosfellsbæ.

Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat milli sveitarfélaga en 68% eða 17.157 króna munur er hæstu gjöldunum sem eru á Seltjarnarnesi, 42.315 krónur á mánuði, og þeim lægstu í Fjarðabyggð, 25.158 krónur á mánuði. Munurinn á hæstu gjöldunum og þeim lægstu er því 154.413 kr. á ári, sé miðað við að gjöldin séu greidd í níu mánuði.

Næsthæstu gjöldin eru í Garðabæ, 39.060 krónur, og næstlægstu gjöldin eru í Reykjanesbæ, 25.973 krónur á mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert