MDE tekur fyrir mál Landsbankamanna

Frá málflutningi markaðsmisnotkunarmáls Landsbankans í héraðsdómi á sínum tíma.
Frá málflutningi markaðsmisnotkunarmáls Landsbankans í héraðsdómi á sínum tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Mannréttindadómstóll Evrópu mun taka fyrir markaðsmisnotkunarmál þriggja starfsmanna Landsbankans sem dæmdir voru í fangelsi árið 2016 í Hæstarétti. Mannréttindadómstóllinn beinir spurningum til íslenska ríkisins sem varða eitt umkvörtunarefni þremenninganna um hvort brotið hafi verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar í ljósi þess að þrír dómarar málsins hafi orðið fyrir fjárhagslegu tapi á falli bankans.  

Fréttablaðið greinir frá málinu í morgun, en þar kemur fram að MDE óski eftir svörum varðandi fjárhagslega hagsmuni dómaranna Eiríks Tómassonar, Markúsar Sigurbjörnssonar og Viðars Más Matthíassonar, en þeir eru nú allir hættir störfum í Hæstarétti og komnir á eftirlaun.

Sig­ur­jón Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóri Lands­bank­ans, Ívar Guðjóns­son, fyrrverandi for­stöðumaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans, og Júlí­us S. Heiðars­son og Sindri Sveins­son, fyrrverandi starfsmenn eig­in fjár­fest­inga, voru allir dæmdir í Hæstarétti í málinu.

Fleiri mál tengd fjármálahruninu hafa verið tekin fyrir af MDE, en þar á meðal var mál stjórnenda Kaupþings sem töldu að þeir hefðu ekki hlotið dóm af óháðum og hlut­laus­um dóm­stól þegar þeir voru sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um og fyr­ir markaðsmis­notk­un í al-Thani-málinu. Voru það þeir Sig­urður Ein­ars­son, fyrrverandi stjórnarformaður, Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrrverandi forstjóri, Ólaf­ur Ólafs­son, einn stærsti hluthafi bankans, og Magnús Guðmunds­son, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, sem kærðu til dómstólsins.

MDE komst að þeirri niðurstöðu að í helstu atriðum hafi málsmeðferðin verið með eðlilegum hætti fyrir utan að efast mætti um óhlutdrægni Árna Kolbeinssonar, dómara í málinu í Hæstarétti, þar sem sonur hans hafi starfað fyrir Kaupþing bæði fyrir og eftir gjaldþrot bankans.

Þá hefur MDE einnig tekið til meðferðar kæru Ólafs Ólafssonar vegna fjárfestingarumsvifa hæsta­rétt­ar­dóm­ar­anna Markús­ar Sig­ur­björns­son­ar, þáver­andi for­seta dóms­ins, og Árna Kol­beins­son­ar í aðdrag­anda falls bank­anna.

Lögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar Hall kærðu einnig ákvörðun dómstóla hér á landi um að þeir skyldu greiða eina milljón hvor í sekt fyrir að segja sig frá málsvörn í al-Thani-málinu árið 2013. Taldi MDE að íslenska ríkið hefði ekki brotið á þeim, en yfirdeild réttarins ákvað að taka málið fyrir og var málflutningur í því síðasta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert