Fagnaðarefni að Ísland sé orðið grænt aftur

Ísland hækkaði um fjögur sæti á milli ára, en Regnbogakortið …
Ísland hækkaði um fjögur sæti á milli ára, en Regnbogakortið sýnir stöðu Evrópulanda með tilliti til söðu og réttinda hinsegin fólks í hverju landi fyrir sig. Ljósmynd/Brynjar Gauti

„Það er auðvitað fagnaðarefni að Ísland sé loks­ins orðið grænt aft­ur,“ seg­ir Þor­björg Þor­valds­dótt­ir, formaður Sam­tak­anna '78, um stöðu Íslands á Regn­boga­korti ILSA-Europe fyr­ir árið 2020.

Ísland hækkaði um fjög­ur sæti á milli ára, en Regn­boga­kortið sýn­ir stöðu Evr­ópu­landa með til­liti til stöðu og rétt­inda hinseg­in fólks í hverju landi fyr­ir sig. 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78.
Þor­björg Þor­valds­dótt­ir, formaður Sam­tak­anna '78. Ljós­mynd/​Aðsend

Á kort­inu eru lönd­in met­in með eft­ir því hversu mörg skil­yrði þau upp­fylla og eru lönd­in sem standa sig hvað verst, svo sem Aser­baíd­sj­an og Rúss­land, rauð að lit en þau sem standa sig best dökk­græn að lit. Ísland hafði verið gult að lit und­an­far­in þrjú ár eft­ir að það féll niður fyr­ir 50 pró­sent­in, en er loks orðið grænt að nýju og upp­fyll­ir nú 54% skil­yrða eft­ir að lög um kyn­rænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi.

Margt óunnið

Þor­björg seg­ir ljóst að enn séu mörg skil­yrði sem Ísland eigi eft­ir að upp­fylla. „Manni finnst það skjóta skökku við að land þar sem viðhorfið gagn­vart hinseg­in fólki er jafn gott og raun ber vitni skuli í raun ekki vera á toppn­um á þessu korti, held­ur í 14. sæti. Það er al­veg hell­ings óunnið verk.“

Á þess­um tíma­punkti seg­ir Þor­björg mik­il­væg­ast að klára in­ter­sex-lög­gjöf­ina til að veita börn­um sem fæðast með ódæmi­gerð kyn­ein­kenni vernd gegn ónauðsyn­leg­um inn­grip­um. 

Kort/​ILGA-Europe

„Það er mest áríðandi núna. En svo sést það þegar kortið er skoðað að við erum langt, langt á eft­ir í öllu sem snert­ir hinseg­in hæl­is­leit­end­ur. Þeirra rétt­indi eru eng­an veg­inn tryggð, en þó upp­fyllt­um við okk­ar fyrsta skil­yrði núna af því fólk í hælis­kerf­inu get­ur breytt nafn­inu sínu og kyn­skrán­ingu út af lög­un­um um kyn­rænt sjálfræði.“

Loks sé mik­il­vægt að bráðabirgðaákvæðið úr lög­un­um um jafna meðferð á vinnu­markaði, sem samþykkt voru árið 2018, um að upp­færa ætti mis­mun­un­ar­lög­gjöf­ina al­mennt, verði upp­fyllt sem fyrst.

Jaðar­sett­ari eft­ir krís­ur eins og COVID-19

ILGA-Europe hef­ur gefið út Regn­boga­kortið í ell­efu ár sam­fleytt og gerðist það fyrst á Regn­boga­korti síðasta árs að lönd­um fór aft­ur, og hélt sú þróun áfram á Regn­boga­korti þessa árs. Þar fór Ung­verjalandi mest aft­ur og féll um átta sæti.

„Þetta er rosa­legt áhyggju­efni,“ seg­ir Þor­björg og minn­ir á að gögn­in sem kortið bygg­ir á séu frá því áður en kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn braust út. „Og við vit­um að þeir hóp­ar sem eru jaðar­sett­ir fyr­ir eru gjarn­an jaðar­sett­ari eft­ir svona krís­ur. Það er mjög mik­il­vægt að við gef­um ekk­ert eft­ir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert