Allt lék á reiðiskjálfi í 25 sekúndur

Upptaka úr öryggismyndavél í húsi á Reykjum á Reykjaströnd í …
Upptaka úr öryggismyndavél í húsi á Reykjum á Reykjaströnd í Skagafirði sýnir að áhrif seinni stóra skjálftans sem reið yfir á laugardag vörðu í um 25 sekúndur. Skjáskot/Facebook

Óhætt er að segja að allt hafi leikið á reiðiskjálfi í húsi á Reykjum í Reykjaströnd í Skagafirði þegar einn af stóru skjálftunum þremur reið yfir Norðurland um helgina. Húsið er um 60 kílómetra frá upptökum skjálftahrinunnar norður af Siglufirði. 

Á upptöku úr öryggismyndavél sem sjá má hér að neðan má sjá hvernig áhrif skjálftans sem varð klukkan 19:26 á laugardag vörðu í um 25 sekúndur, en skjálftinn mældist 5,6 að stærð. Drunurnar sem fylgja eru vægast sagt óhugnanlegar. 

Veðurstofa Íslands fékk myndskeiðið sent og deildi á Facebook-síðu sinni og lætur áhugaverðan fróðleiksmola fylgja með um staðhætti: „Reykir eru skammt frá Grettislaug þar sem Grettir á að hafa hlýjað sér eftir Drangeyjarsund. Glámur, draugurinn sem Grettir glímdi við, hefði verið stoltur af þessum látum sem heyrast greinilega, en sjón er sögu ríkari.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka